„Þetta er grafalvarleg staða“

Bráðamóttaka geðsviðs Landspítalans við Hringbraut.
Bráðamóttaka geðsviðs Landspítalans við Hringbraut. Kristinn Ingvarsson

Niðurskurður til geðsviðs Landspítalans-Háskólasjúkrahúss hefur verið tæp 20% á síðustu fimm árum. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir þjónustu farið sívaxandi. „Ef verkfall lækna bætist ofan á verður ástandið því orðið verulega slæmt. Okkar hópur er mjög viðkvæmur sjúklingahópur og verkfall myndi hafa alvarleg áhrif á hann,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar um yfirvofandi verkfall lækna.

106% nýting alltof mikið

Á þessu ári hefur nýting deilda á geðsviði verið 96% að meðaltali eða á bilinu 92% upp í 106% eftir deildum. Anna Gunnhildur nefnir að 106% nýtingin hafi verið á deild fyrir þunglynda. Þangað inn hafa til dæmis verið lagðar konur með fæðingaþunglyndi með nýbura með sér.

„Við vitum að kjöraðstæður á geðsviði eru 80 til 85% nýting. Með því hlutfalli er hægt að koma til móts við eðlilegar sveiflur og bráðatilvik. Það segir sig sjálft að 106% nýting er alltof mikið,“ segir Anna Gunnhildur og bætir við að hún hafi nýlega heyrt dæmi um að einstaklingur hafi reynt sjálfsvíg eftir að hafa þurft að hverfa frá geðsviðinu. 

Velta fyrir sér hvernig skal bregðast við

Anna Gunnhildur segir að félagsmenn Geðhjálpar hafi vissulega áhyggjur af stöðu mála ef til verkfalls kemur. „Fólk hefur auðvitað áhyggjur en vonar jafnframt að ekkert verði af þessu. Núna þurfa félagasamtök eins og við að velta því fyrir sér hvernig þau geta brugðist við ef til verkfalls kemur. Jafnvel er hægt að beina fólki í eitthvað skjól eða athvarf til að mæta þessu. Það er ein hugmynd en ekkert hefur verið ákveðið. En þetta er grafalvarleg staða og í rauninni óásættanleg í íslensku velferðarsamfélagi.“

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar.
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert