Stórbrotið myndband frá eldgosinu

„Ekki bar á öðru en að aukin kraftur væri í eldgosinu,“ segir Gísli Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, sem flaug yfir eldgosið í Holuhrauni í gær og tók meðfylgjandi myndband sem sýnir vel hvernig ástandið er á svæðinu. Gosið heldur áfram með svipuðu hraunflæði og verið hefur undanfarið.

Erfitt hefur reynst að fljúga yfir gosið á síðustu dögum vegna þykkrar þoku og að sama skapi hefur lítið til gossins sést á vefmyndavélum. Í stórbrotnu mynbandi Gísla má hins vegar sjá að hvergi er lát á hraunflæði og glóandi hraunið vellur úr gígnum sem myndast hefur í Holuhrauni.

Jarðskjálftavirkni er svipuð og síðustu daga. Frekar lítil skjálftavirkni er í kvikuganginum en um tuttugu skjálftar hafa mælst á síðasta sólarhring, allir innan við 1,5 að stærð og í norðurhluta gangsins milli gosstöðva og nokkra kílómetra undir Dyngjujökul.

Um áttatíu jarðskjálftar hafa mælst við öskjubrún Bárðarbungu. Stærstu skjálftarnir urðu kl. 11:26 og 23:51 í gær, báðir 4,8 að stærð. Skjálftar af stærð 4,7 og 4,5 mældust einnig og sjö milli 3,0 og 3,9 að stærð. Flestir urðu við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert