Förufálki á svölum í Vesturbænum

„Hann húkti þarna úti á svölum og maður hélt að hann myndi kannski fljúga burt en svo var hann ennþá þarna í morgunsárið, greyið,“ segir Trausti Þorgeirsson, fjölskyldufaðir í Vesturbænum, sem fékk óvæntan gest til sín á fimmtudagskvöld. Þá stoppaði á svölunum förufálki og dvaldi næturlangt.

Trausti segir í samtali við mbl.is að svo virðist sem hann hafi flogið á rúðu eða svalahandriðið og vankast við það. „Svo var hann að reyna fljúga í burtu en það var eins og hann gæti ekki hafið sig á loft.“ Förufálkinn kom sér því fyrir við svaladyrnar og hafðist við þar fram á næsta dag. Þá var ekki annað í stöðunni en að hringja á lögregluna.

Hann segir að hvorki hann né lögreglumennirnir hafi þorað að fara út á svalir. „Ekki var farið í það í lögregluskólanum hvernig fanga skyldi [förufálka] á ókunnum svölum. Því fékk lögreglan vanan fálkamann á staðinn úr Melaskóla sem var með sérhæfðan hanska,“ segir Trausti á facebooksíðu sinni. „Þegar hann nálgaðist fuglinn dreif hann sig hins vegar upp á svalahandrið og síðan út í heiminn aftur, líklega meiddur á fæti.“

Trausti segir að smáfuglarnir hafi hreinlega tryllst þegar förufálkinn flaug á brott, hópuðust þeir að honum og eltu.

Í lok síðasta mánaðar sást til tveggja förufálka á Suðunesjum, var annar ungur en hinn eldri. Að sögn Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings er möguleiki að förufálkinn í Vesturbænum sé sá yngri en af myndum af dæma sé um ungan fugl að ræða.

Förufálkinn er aðeins smærri en íslenski fálkinn og segir á Vísindavefnum að hann sé að öllum líkindum útbreiddastur allra ránfugla heimsins en hann verpir í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu. Hann er ekki algengur hér á landi en flækist þó stundum hingað á ferðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert