Í sjálfheldu á Kirkjufelli

Maðurinn var í sjálfheldu á Kirkjufelli í Grundarfirði.
Maðurinn var í sjálfheldu á Kirkjufelli í Grundarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Björgunarsveitin Klakkur í Grundarfirði var kölluð út um klukkan sjö í kvöld vegna manns sem var í sjálfheldu á Kirkjufelli. Maðurinn, sem er erlendur ferðamaður, var á gönguleiðinni sunnan megin í fjallinu, þegar hann tapaði áttum í myrkrinu og treysti sér ekki niður af sjálfsdáðum.

Björgunarsveitamenn gengu upp í fjallið, fundu manninn í um 350-400 m hæð og fylgdu honum niður.

Töluvert mikið var kallað út af björgunarliði vegna þessa atviks þar sem fyrstu upplýsingar gáfu til kynna að einhver hefði fallið í fjallinu og var því þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og sérhæft fjallabjörgunarfólk af höfuðborgarsvæðinu. Fljótlega varð þó ljóst að ekki var þörf á þessum viðbúnaði og var hann því afturkallaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörgu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert