Reyna að ná sáttum í læknadeilu

Læknar að stöfum.
Læknar að stöfum. Rax / Ragnar Axelsson

„Við vonumst auðvitað til þess að það komi ekki til þess að við þurfum að fara í verkfall. Það er algjört neyðarúrræði,“ segir Þor­björn Jóns­son, formaður Lækna­fé­lags Íslands, sem mun í dag funda með ríkissáttasemjara. Félagið samþykkti á dögunum verk­fallsaðgerðir sem gert er ráð fyrir að hefjist hinn 27. októbær nk. „Það eru tvær vikur þar til verkfallið á að hefjast og það er margt sem getur gerst á þeim tíma.“

Yfir 80% af at­kvæðis­bær­um lækn­um tók þátt í kosn­ing­unni og yfir 95% þeirra samþykktu fyr­ir­hugaðar verk­fallsaðgerðir. „Það var nánast fullkomin samstaða hjá þeim sem greiddu atkvæði, maður gat ekki vonast til meiri samstöðu,“ segir Þorbjörn. Þetta er í fyrsta sinn sem lækn­ar á Íslandi, sem fengu tak­markaðan verk­falls­rétt fyr­ir tæp­um 30 árum, boða til verk­falls.

Mun hafa gríðarleg áhrif fyrir sjúklinga

Þorbjörn segir undirbúning fyrir verkfall standa yfir, en ef til þess komi muni það hafa gríðarleg áhrif fyrir sjúklinga. „Það myndu skapast mikil óþægindi fyrir sjúklinga. Biðlistar lengjast og göngudeild fellur niður í einhverjum mæli,“ segir hann. „En allri bráð verður að sinna og verður sinnt.“

Boðaðar verk­fallsaðgerðir Lækna­fé­lags­ins hefjast 27. októ­ber og verða til 11. des­em­ber. Þó verður verk­fall aðeins ákveðna daga og aðeins mun hluti lækna fara í verk­fall hverju sinni. Vinna lækna í verk­falli verður í sam­ræmi við und­anþágulista sem fjár­málaráðuneytið birti í aug­lýs­ingu nr. 101/​2014 og er gert ráð fyr­ir að á þeim dög­um sem efnt er til verk­falla verði hverju sinni tryggð sam­bæri­leg mönn­un og tíðkast á frí­dög­um.

Stjórn hjúkr­un­ar­ráðs Land­spít­ala hefur lýst yfir mikl­um áhyggj­um vegna yf­ir­vof­andi verk­falls lækna. 

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert