Risastór skýjasveipur lægðar

Ansi stór lægð er í grennd við landið og má sjá á hitamyndum að skýjasveipur hennar er risastór og mjög hátt á lofti. Sökum hennar má búast við að austanátt smám saman aukist sunnan við land næstu daga og síðan einnig norðar.

Trausti Jónsson veðurfræðingur vekur athygli á lægðinni á vefsvæði sínu. Hann segir að þrýstingur í lægðarmiðju sé um 950 hPa. „Við sjáum að nærri miðjunni eru að myndast litlir sveipir - einkenni þess að stóra hringrásin í kringum lægðarmiðjuna er að detta í sundur í nokkrar minni. Hvað verður úr slíku vitum við ekki í smáatriðum. Lægðarmiðjan hreyfist nú hægt til austurs.“

Hann segir að Evrópureiknimiðstöðin geri ekki ráð fyrir því að alvöruúrkomubakki komist til Íslands fyrr en á laugardag „en sjálfsagt verða einhverjir minni úrkomugarðar á ferðinni nærri Suðurlandi og einhver úrkoma verður í hafáttinni austanlands“.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert