„Rosalega hræddur við þetta fyrst“

Bæði karlarnir sem sóttu meðferð hjá KTÁ og eiginkonur þeirra …
Bæði karlarnir sem sóttu meðferð hjá KTÁ og eiginkonur þeirra segja margt hafa breyst eftir meðferðina. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeim mun lengra sem kom inn í viðtölin, þeim mun meira áttaði maður sig á hvað maður hefði gert vitlaust,“ segir maður sem sótti meðferð hjá Körlum til ábyrgðar (KTÁ), eftir að hafa beitt ofbeldi á heimili sínu.

Í nýútkominni úttekt, sem var kynnt í Háskóla Íslands í gær, kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti karla sem leitað hafa til KTÁ sé ánægður með meðferðina og telji hana hafa skilað árangri. 

KTÁ er eina sérhæfða meðferðarúrræðið fyrir fólk sem beitir ofbeldi á heimilum hér á landi. Um er að ræða einstaklingsmeðferð og hópmeðferð sem sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson sjá um. Þungamiðja meðferðarinnar er að taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og í framhaldinu að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við það sem upp kann að koma í samskiptum. Um 250 gerendur hafa nýtt sér meðferðarúrræðið frá árinu 2006. Þrátt fyrir að úrræðið sé miðað að körlum geta konur sem beita ofbeldi einnig leitað til KTÁ.

Almennt ánægðir með úrræðið

Elísabet Karlsdóttir, félagsráðgjafi og framkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd, og Ásdís A. Arnalds, félagsfræðingur og verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, unnu að úttektinni fyrir Jafnréttisstofu. Í úttektinni var gerð könnun sem um 50 karlar og 30 eiginkonur eða kærustur þeirra tóku þátt í. Þá voru tekin viðtöl við sex gerendur og sex maka sem lýstu upplifun sinni af meðferðinni.

Samkvæmt úttektinni voru gerendurnir sem höfðu nýtt sér meðferðarúrræðið almennt ánægðir með meðferðina. Nær allir karlarnir sem tóku þátt í könnuninni töldu sig eiga auðveldara með að halda ró sinni við ögrandi aðstæður eftir meðferðina og um 80% þeirra töldu sig vera betra foreldri.

Veruleg fækkun á ofbeldisatvikum eftir meðferð

Í skýrslunni kemur fram að ofbeldisatvikum hafi fækkað verulega eftir að gerendur fóru að sækja meðferð KTÁ. Fyrir meðferðina töldu til dæmis um 47% þeirra sig hafa hrint, þrifið í eða snúið upp á handlegg maka síns, en eftir meðferðina voru 2% sem töldu sig hafa gert það. Ágætis samsvörun er í svörum makanna, og sýna þau einnig fram á mikla fækkun á ofbeldisatvikum. Þó finna 50% maka enn fyrir andlegu ofbeldi, samanborið við 90% fyrir meðferð.

Töluvert ósamræmi var í svörum gerenda og maka þeirra hvað varðar kynferðislegt ofbeldi, en um 20% maka töldu gerendur hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi áður en þeir hófu meðferðina. Nær enginn gerandi taldi sig þó hafa gert þetta, og aðeins einn þeirra játaði að hafa beitt kynferðislegu ofbeldi áður en meðferðin hófst. Einar Gylfi og Andrés segja þetta vera umhugsunarefni sem þeir muni skoða betur.

„Vandamál sem verður alltaf“

Í viðtölum við gerendurna sem höfðu sótt meðferðina kom fram að margir þeirra teldu að uppeldi, erfið æska og einelti hefðu verið ástæður ofbeldishneigðarinnar. Mörgum þeirra þótti erfitt að viðurkenna vandann. 

„Ég var rosalega hræddur við þetta fyrst eða svona feiminn við þetta, þú veist, fara að sitja með fullt af einhverjum mönnum, allir að ræða eitthvað sem við erum að gera sem við eigum ekki að vera að gera, skilurðu, er haft eftir einum manninum í skýrslunni. 

Eftir meðferðina töldu margir gerendanna að hegðunin hefði breyst, en þó væri vandamálið nokkuð sem ekki hyrfi. „Ég vildi óska að ég gæti sagt þú veist, að þetta sé fullkomlega lagað þú veist, þetta sé bara farið, en þetta er svona vandamál sem verður alltaf. Ég held ég þurfi alltaf að vera meðvitaður um þetta og alltaf að vera að vinna í þessu.

„Hann sýnir að hann er að reyna“

Margar kvennanna sem fóru í viðtal sögðust hafa kennt sér um ofbeldið, en sögðu margt hafa breyst eftir meðferðina. „Það er svona sýnilegt sko að hann vill reyna [...] þó að það gangi ekki alltaf, en [...] hann sýnir það að hann er að reyna,“ er haft eftir einni þeirra í skýrslunni.

Konurnar voru almennt ánægðar með úrræðið og segja að dregið hafi úr ofbeldinu, sérstaklega líkamlega ofbeldinu, eftir að eiginmaður þeirra eða kærasti hóf meðferð hjá Körlum til ábyrgðar. „Það hefur helst haft þau áhrif að ég get slakað meira á og ég get líka eiginlega verið betri við hann þegar ég finn það að hann er að reyna.“

Sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson sem sjá um …
Sálfræðingarnir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson sem sjá um meðferðina Karlar til ábyrgðar.
Úttektin var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknastofnunar í …
Úttektin var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert