Áhöfn Týs aðstoðar flóttamenn

Varðskipið Týr
Varðskipið Týr mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

 Landhelgisgæslunni barst í vikunni beiðni frá Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins um að Landhelgisgæslan myndi senda varðskip til aðstoðar við landamæragæslu á Miðjarðarhafi.

Landhelgisgæslan stefnir að því að verða við beiðninni og er nú hafinn undirbúningur sem miðar að því að varðskipið Týr fari í verkefnið sem mun standa yfir í desembermánuði með möguleika á framlengingu. Undirbúningurinn felst m.a. í því að hafa samráð við sóttvarnalækni varðandi viðbrögð við ebólu faraldrinum. Aðrir þættir undirbúnings eru skipulagning vegna mannskapsmála, vistir skips og búnaður.

Reiknað er með að varðskipið fari á svæðið suður af Sikiley en þar hefur orðið gríðarleg aukning í fjölda flóttafólks síðustu misseri og hundruð manna farist við að freista þess að komast til Evrópu.

Stefnt að stórauknum viðbúnaði

Frontex vinnur að því að stórauka viðbúnað á svæðinu og er óskað eftir skipum frá Ítalíu, Eistlandi, Möltu og Portúgal auk Íslands en því til viðbótar munu minni bátar og flugvélar taka þátt, samkvæmt upplýsingum frá Hrafnhildi Brynju Stefánsdóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í verkefnum á vegum Frontex frá árinu 2010, bæði með flugvél og varðskipi en Ísland er aðili að Frontex í gegnum Schengen samstarfið. 

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa á tímabilinu komið að óteljandi björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi þar sem þúsundum manna hefur verið bjargað og er mikil þörf á að Evrópuþjóðir taki höndum saman við leit-, björgun og eftirlit á svæðinu, segir Hrafnhildur.

AFP
Gífurlegur fjöldi fólks býr við svo skelfilegar aðstæður að það …
Gífurlegur fjöldi fólks býr við svo skelfilegar aðstæður að það leggur af stað í þá hættuför sem flótti til Evrópu er oft. AFP
AFP
Í flóttamannabúðum sem þessum búa hundruð þúsunda flóttamanna víða um …
Í flóttamannabúðum sem þessum búa hundruð þúsunda flóttamanna víða um heim, kannski árum saman. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert