Kjarnorkuskandall Frakka

Ljósmynd/Vive la France

„Myndin fjallar um afleiðingar kjarnorkusprenginga Frakka í Kyrrahafinu, nánar tiltekið Frönsku Pólýnesíu. Þær hófust árið 1966 og stóðu þar til árið 1996,“ segir Helgi Felixson, sem leikstýrir kvikmyndinni Vive la France ásamt konu sinni Titti Johnson. Myndin var sýnd á síðastliðinni RIFF-hátíð og heldur áfram göngu sinni í Bíó Paradís næstu misseri.

„Á þessu tímabili sprengdu Frakkar 194 sprengjur á tilraunaeyjunni Moruroa. Stór hluti þeirra var sprengdur undir berum himni en meirihlutinn þó neðansjávar. Í kvikmyndinni legg ég áherslu á fjölskyldu sem býr á eyjunni Tureia, sem er lítil og fámen eyja sem liggur nærri Moruroa,“ segir hann. Vive la France sást fyrst á hvíta tjaldinu á kvikmyndahátíð í Gautaborg í janúar og hefur síðan þá flakkað á milli kvikmyndahátíða víðsvegar um heiminn.

„Kvikmyndin hefur einnig verið sýnd í kvikmyndahúsum í Svíþjóð. Íslandsfrumsýningin var á RIFF og svo verður hún hluti af kvikmyndahátíðum í París og Chicago,“ segir Helgi.

Rakið aftur til Kon-Tiki

Spurður að því hví hann hafi lagst í þetta ákveðna verkefni segir hann að tilviljanir hafi ráðið för.

„Ég get í raun rakið það aftur til Kon-Tiki sem strandaði á eyjunni Raroia árið 1947. Ég fór á eyjuna árið 1996 ásamt leikstjóranum Torgny Anderberg en þar var tekin upp barnaþáttaröð fyrir sænska sjónvarpið. Kokkurinn á Kon-Tiki, Bengt Danielsson, skrifaði einmitt handritið að þáttaröðinni. Hann hafði orðið eftir á eyjunni eftir að Kon-Tiki strandaði þar og eyddi restinni af ævi sinni í Frönsku Pólýnesíu. Bengt Danielsson kynnti mig fyrir þessum kjarnorkutilraunum Frakka en Torgny Anderberg, sem því miður er ekki á lífi í dag, studdi mig mikið. Hann var í raun minn lærimeistari. Við gerðum margt saman, könnuðum frumskóga Afríku, regnskóga Suður-Ameríku og gerðum margar myndir,“ segir Helgi um lærimeistarann.

„Ég komst síðar í kynni við eyjarskeggja og þá sérstaklega perlukafara. Saga eins þeirra vakti athygli mína, hann kenndi mér ýmislegt um lífið og tilveruna. Hann sagði mér frá því hvernig hefði verið að lifa í paradís á þessari friðsælu eyju áður en Frakkar mættu á svæðið með sitt kjarnorkuprógramm. Hann yfirgaf þá friðsældina og leitaði sér að vinnu hjá Frökkunum sem lofuðu gulli og grænum skógum,“ segir hann.

Frakkar rassskelltir

Margir komu að fjármögnun myndarinnar en meðal þeirra má nefna íslensku, sænsku, finnsku og norsku kvikmyndastofnanirnar, ZDF auk ýmissa norrænna sjónvarpsstöðva.

„Það var mikið ströggl að fjármagna myndina. Það var ekki fyrr en kjarnorkuslysið í Fukushima varð árið 2011 að kjarnorkan fór að vekja áhuga manna. Verkefnið okkar færðist þá ofar á vinsældalistann hjá framleiðendum. Verkefninu var þá hrundið af stað,“ segir Helgi en hann kveðst ekki enn hafa fengið viðbrögð frá Frökkum varðandi myndina sem klárlega er ádeila á þeirra framferði í Kyrrahafinu.

„Frakkar eru rassskelltir í myndinni. Það verður spennandi að sjá hvernig þeir taka henni þegar hún verður sýnd þar í landi, hún ber náttúrlega þennan kaldhæðna titil. Þetta er hins vegar verðugt málefni enda mikið af fólki sem hefur orðið fyrir mikilli röskun. Þrátt fyrir mikil veikindi sem það stríðir við er það ekki stærsta áhyggjuefnið. Fólkið hræðist þá tímasprengju sem eyjan sjálf er í rauninni. Eftir allar þessar neðansjávarsprengingar er Moruroa við það að hrynja. Sumar sprengjurnar sem voru sprengdar voru tvö hundruð sinnum stærri en Hiroshima-sprengjan. Þetta er kóraleyja með lóni í miðjunni þar sem var borað þrjú til fjögur hundruð metra ofan í hafsbotninn. Þessar tæplega tvö hundruð sprengjur voru síðan sprengdar þar með þeim afleiðingum að miklar sprungur mynduðust. Allur hafsbotninn rifnaði að sjálfsögðu upp og eyjan við það að hrynja. Það þýðir að mjög mikið af efni færi í sjóinn og myndi það skapa flóðbylgju sem færi yfir nærliggjandi eyjar og Kyrrahafið í heild. Það er búið að reikna það út að það yrði ansi stór flóðbylgja,“ segir hann.

Vistkerfið í hættu

„Það sem er auk þess grafalvarlegt er hversu mikið plútóníum er ennþá á svæðinu. Við erum að tala um tvö til fjögur tonn af þessu skaðlega efni. Málið er að það fer ekki nema ákveðin prósenta af efninu í það að sprengja sprengjuna, hitt verður alltaf eftir. Eyðingartími efnisins er kannski upp undir 240 þúsund ár. Frakkar afneita þessu öllu en sönnur á þessu liggja þó fyrir, þetta eru því ekki eintómar getgátur. Þetta er svo rosalega viðamikið að maður áttar sig varla á þessu. Við reynum því meðal annars að nálgast efnið á auðmeltan hátt og sýna hvernig fólk á svæðinu tekur á þessum málum í sínu daglega lífi,“ segir hann. 

„Þetta hefur haft, og mun hafa, gríðarleg áhrif á alltaf lífríkið á svæðinu. Vistkerfið þarna í kring virkar eins og sía á allt það eitur sem fer út í vatnið. Þetta fer síðan í það sem fólkið á svæðinu borðar og þar fram eftir götunum. Þetta er svakalegt og það er mikil áskorun að útskýra þetta allt saman með sómasamlegum hætti. Svo er líka erfitt að sýna fram á þetta þar sem svæðið er lokað. Við reynum þó að skýra þetta eftir fremsta megni með myndefni sem við höfum komist yfir með ýmsum hætti,“ segir Helgi að lokum. Stiklu úr myndinni má sjá hér að neðan. 

TRAILER 21 JAN 2014 from Helgi FELIXSON and Titti JOHNSON on Vimeo.

Skjáskot af Vive la France.
Helgi Felixson mundar vélina.
Helgi Felixson mundar vélina. Ljósmynd/Ragnar Axelsson
Ljósmynd/Vive la France
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert