Opið fyrir „týndar konur“

Perlan böðuðu bleiku ljósi í tilefni árveknismánuðarins.
Perlan böðuðu bleiku ljósi í tilefni árveknismánuðarins. mbl.is/Árni Sæberg

Á morgun verður Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð opin kl. 8-16 fyrir „týndar konur“ þ.e. konur sem ekki hafa skilað sér á réttum tíma í leghálskrabbameinsleit. Þær þurfa ekki að panta tíma, bara koma við og fá skoðun.

Skoðunargjaldið er 4.200 kr. en Krabbameinsfélagið minnir á að flest stéttarfélög niðurgreiða það. „Við munum taka vel á móti þeim því haldið verður upp á bleika daginn hjá Krabbameinsfélaginu með tónlist, slaufum, þyrluflugi og veitingum,“ segir í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Bleiki dagurinn er á morgun, 16. október. Þá eru landsmenn hvattir til að klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi og minna þannig á þetta mikilvæga málefni, baráttuna gegn krabbameinum í konum.  

Nú eru 50 ár frá því leit að leghálskrabbameini hófst á vegum Krabbameinsfélagsins og er talið að Íslendingar hefðu misst rúmlega 600 fleiri konur úr þessum sjúkdómi á tímabilinu ef leitarinnar hefði ekki notið við.

Um 45% kvenna sem boðið er að mæta til leitar að leghálskrabbameini hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins mæta ekki innan tilskilins tíma. Í október hefur verið sérstakt átak til að ná til þessa hóps og núna á bleika deginum opnum við Leitarstöðina fyrir þessum konum og hvetjum þær sem enn eiga eftir að skila sér að mæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert