„Allt sem háttvirtur þingmaður sagði er rangt“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

„Ég veit bara ekki hvar ég á að byrja vegna þess að allt sem háttvirtur þingmaður sagði, hvert einasta atriði, er rangt. Háttvirtur þingmaður hefur oft á tíðum sýnt af sér ósvífni hér í ræðustól en í þetta skipti tókst honum að halda heila ræðu þar sem hann fór ekki með eitt atriði rétt svo það er mjög erfitt að svara þessari fyrirspurn ef fyrirspurn skyldi kalla.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, sem gerði hag heimilanna í landinu að umfjöllunarefni sínu. „Fyrir kosningar talaði Framsóknarflokkurinn mikið um hrægamma sem ættu að greiða kostnað við skuldalækkun heimilanna en núna eftir kosningar hefur hann skipt heimilunum í landinu inn fyrir þá hrægamma og ætlar heimilunum sjálfum að greiða skuldalækkunina,“ sagði Helgi og bætti við að mögulegur ávinningur fólks að skuldaleiðréttingum þegar kæmi að greiðslubyrði yrði an engu vegna hækkunar ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti á matvæli. Vildi hann meina að hagur heimilanna hefði versnað mjög frá því á síðasta kjörtímabili. Ekki væri nema von að forsætisráðherra missti stjórn á skapi sínu.

Sigmundur ítrekaði fyrri orð um að Helgi færi með rangt mál. Ríkisstjórnin væri ekki að hækka skatta. Þvert á móti væri hún að lækka skatta. Ríkisstjórnin væri að lækka álögur á öll heimili ólíkt því sem síðasta stjórn hefði gert á allan mögulegan hátt. Síðasta ríkisstjórn hefði ennfremur svikið fyrirheit sem hún hafi gefið um að lækka skuldir heimilanna þegar gullið tækifæri hafi verið til þess að veita heimilunum forgang gagnvart fjármálafyrirtækjum. „Síðasta ríkisstjórn barðist fyrir því að koma skuldum fallinna einkafyrirtækja á heimilin. Þessi ríkisstjórn færir skuldir heimilanna niður og skattleggur fjármálafyrirtækin um tugi milljarða sem er samkvæmt skattakenningum vinstrimanna. Síðasta ríkisstjórn gaf þá tugi milljarða á ári.“<br/><br/>

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert