Öðruvísi á góðan hátt

Wirach Yodsurang, Mart og Pornwadee Rattanapaitoonchai á heimili sínu í …
Wirach Yodsurang, Mart og Pornwadee Rattanapaitoonchai á heimili sínu í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ísland er okkar heimili núna,“ segja hjónin og Kópavogsbúarnir Pornwadee Rattanapaitoonchai og Wirach Yodsurang frá Taílandi sem hafa verið búsett hér á landi í nokkur ár. Þau hafa starfað hjá upplýsingatæknifyrirtækjum víða um heim undanfarin 20 ár, núna starfa þau á upplýsingatæknisviði Arion banka og segja Ísland vera góðan og öruggan stað til að ala upp börn.

Pornwadee sem yfirleitt er kölluð Oy er kínversk en ólst upp í Bangkok í Taílandi og Wirach er fæddur og uppalinn á landsbyggðinni. Hingað komu þau fyrst árið 1998 og störfuðu þá hjá upplýsingatæknifyrirtækinu EJS. Þau fóru aftur til heimalands síns árið 2002, en árið 2007 sneru þau aftur hingað, fóru þá að starfa á upplýsingatæknisviði Kaupþings og starfa nú hjá Arion banka. Velferð sonarins Thanawin, sem að öllu jöfnu gengur undir nafninu Mart, hafði mikið að segja um þessa flutninga.

Upphafið má rekja til Hong Kong. Þar störfuðu tölvufræðingurinn Oy og tölfræðingurinn Wirach fyrir alþjóðlegt upplýsingatæknifyrirtæki. Þau kynntust Íslendingum sem störfuðu á vegum íslenska upplýsingatæknifyrirtækisins EJS í Hong Kong og það leiddi til þess að Oy var boðið starf hjá EJS hér á landi. Wirach kom síðan nokkrum mánuðum síðar. „Ég kom hingað í febrúar 1998,“ segir Oy sem hafði aldrei áður komið til Evrópu. „Þá var snjór og frost, ég hafði aldrei séð snjó áður með berum augum og verð að viðurkenna að ég var hrædd. Þessi munur á árstíðunum var algjörlega framandi. Mér hefur alltaf fundist Ísland vera sitt hvort landið eftir því hvort það er sumar eða vetur.“

Eiginmaðurinn kom svo síðar og þau störfuðu hjá EJS til ársins 2002. Þá lá leiðin aftur til Taílands, þar sem þau hófu störf hjá þarlendu símafyrirtæki sem var í eigu fyrrverandi forsætisráðherra landsins.

Hafa alltaf unnið saman

Þegar Mart fæddist árið 2004 fóru þau að huga að annarri búsetu. „Við bjuggum í Bangkok og það tók okkur þrjá tíma á dag að komast til og frá vinnu,“ segir Wirach. „Við höfðum líka áhyggjur af öryggi Marts, þó að við byggjum í lokuðu hverfi með öryggisvörðum vorum við með sífelldar áhyggjur. Þá er menntun mjög dýr, opinberir skólar eru almennt ekki góðir og það er mikil samkeppni að koma börnum inn í þá einkaskóla sem eru taldir bestir. Þeir eru líka mjög dýrir, skólagjöldin geta verið milljónir á ári. Hérna fá öll börn mjög góða menntun og við þurfum engar áhyggjur að hafa af öryggi.“

„Ég verð alltaf svo glöð þegar ég horfi á eftir honum hjóla einum í skólann,“ segir Oy. „Það minnir mig á hvað þetta var góð ákvörðun.“

Hjónin höfðu samband við fyrrverandi vinnufélaga og svo fór að þeim voru boðin störf hjá Kaupþingi. Þau hafa nú búið hér samfleytt frá 2007, lengst af í Reykjavík en fluttu fyrir skömmu í eitt af nýrri hverfum Kópavogs.

Spurð um hvort þau hafi óttast að missa vinnuna þegar Kaupþing féll haustið 2008 segja þau svo hafa verið. „Já, auðvitað. Við fengum að vita að það yrði hringt í alla og þeir látnir vita. Við biðum við símann allan daginn og þegar símtalið kom var okkur sagt að við myndum halda vinnunni,“ segir Wirach.

Hjónin hafa starfað víða um heim; í Taílandi, á Filippseyjum, í Hong Kong og núna á Íslandi. Þau hafa alla tíð, allt frá því að þau luku háskólanámi árið 1994, unnið saman og segja ekki erfitt að draga mörk vinnu og einkalífs. „Í vinnunni erum við vinnufélagar. Okkur myndi t.d. aldrei detta í hug að fara að tala um í vinnunnihvað við ætlum að hafa í kvöldmatinn,“ segir Wirach.

Kurteisir og áhugasamir

Vissulega er margs að sakna frá heimalandinu og nefna þau einkum vini og fjölskyldu. Þau leggja sig fram við að viðhalda tengslum og fara til Taílands á hverju ári.

Hjónin hafa ferðast talsvert um landið. Spurð um hvaða staður þeim þyki fallegastur svara þau að hér sé allt fallegt. „En ef ég á að velja einn uppáhaldsstað, þá er það Geysir,“ segir Oy og Wirach samsinnir því.

Þau segja Kópavog fyrirtaks stað til að búa á, öll þjónusta sé innan seilingar og stutt sé í skólann og á fótboltaæfingar fyrir Mart sem æfir af kappi með Breiðablik.

Hjónin eru sammála um að Ísland sé talsvert frábrugðið Taílandi að flestu leyti. Þau segja Íslendinga almennt áhugasama um uppruna þeirra og hvernig þeim gangi að aðlagast samfélaginu. Þau segja eftirtektarvert hvað Íslendingar eru kurteisir upp til hópa og þau heyri þá sjaldan tala illa um annað fólk. „Mér finnst áberandi hvað Íslendingar eru yfirleitt hreinskilnir, þeir koma hreint fram við fólk og það finnst mér þægilegt,“ segir Oy.

„Ísland er öðruvísi en Taíland á góðan hátt, ætli það sé ekki besta lýsingin,“ segir Wirach.

Wirach Yodsurang, Mart og Pornwadee Rattanapaitoonchai á heimili sínu í …
Wirach Yodsurang, Mart og Pornwadee Rattanapaitoonchai á heimili sínu í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert