Undirbúa nýja byggð í Laugarnesi

Gert er ráð fyrir að gömlu skemmurnar víki fyrir íbúðum …
Gert er ráð fyrir að gömlu skemmurnar víki fyrir íbúðum og atvinnuhúsnæði. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, sér m.a. fyrir sér skrifstofuhúsnæði, minni heildsölur og ýmis konar þjónustu, sem rímar við hafnarstarfsemi á svæðinu, enda sé Sundahafnarsvæðið meigingátt flutninga til landsins. mbl.is/Júlíus

Allt að 200 íbúðir verða mögulega byggðar á svonefndum Kassagerðarreit, skammt frá Laugarnesinu í Reykjavík. Raunhæft þykir að árið 2020 verði uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis á reitnum lokið.

Fram kemur í samantekt umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, sem lögð var fyrir stjórn Faxaflóahafna, að í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að byggingarmagn á reitnum verði aukið um 80.000 fermetra og að byggðin verði þriggja til fimm hæða. Sé íbúð að meðaltali 100 fermetrar fara 20.000 fermetrar undir íbúðir.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir málið á frumstigi.

„Í nýju aðalskipulagi borgarinnar er gert ráð fyrir þróunarreit á þessu svæði. Á árum áður voru ýmsar hugmyndir um uppbyggingu á því sem kallað var Tollvörugeymslureitur og Kassagerðarreitur. Það hafði hins vegar engan framgang. Það sem nú virðist í fljótu bragði blasa við er að höfnin, í samvinnu við borgina, setji fram forsendur að deiliskipulagi á reitnum. Sú vinna er ekki farin af stað. Væntanlega yrði það fyrsta skrefið í skipulagningunni.“

Flestar íbúðanna við Sæbraut

Spurður hvort einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar um staðsetningu íbúða á reitnum segir Gísli að málið sé ekki komið svo langt.

„Það er erfitt að segja til um hvernig þetta mun líta út. Væntanlega yrði stærstur hluti íbúðanna með Sæbrautinni. Ég get ímyndað mér að áhugi væri á því að íbúðirnar sneru til vesturs. Það á eftir að fara talsvert miklu betur í gegnum það og hversu stórt svæðið verður þegar upp er staðið,“ segir Gísli en frá íbúðum á vestari hluta reitsins yrði útsýni inn til Reykjavíkurhafnar.

Að sögn Gísla má skipta reitnum í tvö svæði. Annars vegar svonefndan Tollvörugeymslureit og Kassagerðarreit og hins vegar lóðina Klettagarða 27. Þá lóð hafi forsvarsmenn Olís hugsað sér sem framtíðarstað fyrir höfuðstöðvar fyrirtækisins. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar í því efni. „Þeirri lóð var sérstaklega úthlutað fyrir starfsemi Olís og á rætur í uppgjöri þegar Olíustöðin í Laugarnesi var lögð niður. Þá var skilinn eftir reitur sem Olís fékk sem hluta af greiðslum fyrir reitinn.“

Björgun flytji starfsemina

Stjórn Faxaflóahafna fundaði í Hafnarhúsinu í gær.

Meðal dagskrárliða var umræða um athafnasvæði Björgunar við Ártúnshöfða. Hinn 22. september lagði stjórnin fram bókun þess efnis að Faxaflóahafnir hygðust segja Björgun formlega upp afnotum á Sævarhöfða 33 í Reykjavík. Skyldi miðað við að lóðin yrði rýmd eigi síðar en í árslok árið 2016.

Forsvarsmönnum Björgunar var í kjölfarið gefið tækifæri til að lýsa sjónarmiðum sínum.

Þau birtust í svarbréfi til Faxaflóahafna 7. október.

Stjórn Faxaflóahafna samþykkti svo bókunina í gær en auk samþykktar um að segja Björgun upp afnotum lóðarinnar segir m.a. að hafnarstjóra sé falið að „skoða hvort rétt sé að nýta kauprétt að fasteignum á lóðinni, á grundvelli mats dómkvaddra matsmanna ef ekki næst samkomulag um kaupverð“. Þá er haldið til haga skyldum Björgunar til hreinsunar aðliggjandi fjöru og botns.

Spurður hvað gerist næst í málinu segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, að ofangreind samþykkt sé að mati stjórnarinnar „tímabær og óhjákvæmileg“. „Það má ætla að það sé sameiginlegur skilningur allra aðila sem koma að málinu að Björgun þurfi að víkja af svæðinu. Það er þá fyrst og fremst spurningin hvernig úr því verður leyst, sem verður umræðuefnið næstu misseri.“

mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert