Endurskoði „harða hægristefnu“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, flytur ávarp á flokksráðsfundinum í …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, flytur ávarp á flokksráðsfundinum í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Flokkráðsfundur Vinstri-grænna fer fram í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði um helgina. Björn Valur Gíslason, varaformaður flokksins, setur fundinn klukkan 17 í dag. Þá mun Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, flytja ávarp.

Af ýmsu er að taka í ályktunum sem flokkurinn hefur sent frá sér vegna fundarins um helgina.

Fundurinn vill að „hörð hægri stefna“ í fjárlagafrumvarpinu verði endurskoðuð og kjör kennara og heilbrigðisstarfsfólks verði bætt. Þá segir einnig að áherslur Kristsdags í Hörpu séu á skjön við ímynd þjóðkirkju.

Bætt kjör kennara brýnt verkefni

Flokksráðsfundurinn hvetur ríkisstjórnina til „að endurskoða þá hörðu hægristefnu sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára“.

„Þar birtist skýr skín ríkisstjórnarinnar um að færa Ísland frá því að vera norrænt velferðarsamfélag af því tagi sem best gerist á hinum Norðurlöndunum yfir í að verða að nokkurs konar tilraunaverkefni fyrir hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar með sílækkandi hlutfalli samneyslunnar,“ segir í einni af ályktunum fundarins.

Bætt kjör kennara og heilbrigðisstarfsfólks eru talin upp sem brýnustu verkefnum næstu ára.

Þá þurfi sérstaklega að huga að aðgerðum gegn vaxandi kynbundnum launamun og versnandi stöðu kvenna á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi aukist meðal kvenna þegar kreppunni er að ljúka og verði langvinnara.

Áherslur Kristsdags á skjön við ímynd þjóðkirkjunnar

Þá lýsir flokkráðsfundurinn „undrun sinni á þátttöku þjóðkirkjunnar í samkomu bókstafstrúarhópa undir heitinu Kristsdagur sem fram fór í Hörpu“.

„Þær áherslur og skilaboð sem samkoman sendi út í samfélagið, og ganga m.a. gegn kvenfrelsi og réttindum kvenna, er mjög á skjön á við þá ímynd sem þjóðkirkjan hefur lagt sig fram um að skapa um hlutverk sitt sem frjálslynd stofnun sem þjóni öllum þegnum samfélagsins,“ segir í ályktuninni.

Þátttaka þjóðkirkjunnar í samkomum sem þessari er til þess fallin að auka áhrif bókstafstrúar og afturhalds ásamt því að ýta undir fordóma m.a. gegn samkynhneigðum.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert