Glæpamenn sem svífast einskis

Kvikmyndin Borgríki 2 - Blóð hraustra manna, sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Borgríki eftir leikstjórann Ólaf de Fleur Jóhannesson, verður frumsýnd í dag. Auk þess að vera leikstjóri framhaldsmyndarinnar skrifaði Ólafur handritið ásamt Hrafnkeli Stefánssyni og með aðalhlutverk fara Darri Ingólfsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Zlatko Krickic, Sigurður Sigurjónsson og Hilmir Snær Guðnason.

Nokkrar persónur úr fyrri myndinni koma við sögu í Borgríki 2, leiknar af Ágústu Evu, Ingvari, Zlatko og Sigurði en Ólafur segir þó ekki nauðsynlegt að hafa séð Borgríki til að njóta framhaldsins. „Það er margbúið að prófa það, myndin stendur á eigin fótum en það er náttúrlega bónus að hafa séð fyrri myndina,“ segir hann. 

Af VHS-kynslóðinni

Myndin fjallar um Hannes, metnaðarfullan lögreglumann sem lifir í skugganum af föður sínum sem er goðsögn innan lögreglunnar. Hannes er ráðinn til starfa við innra eftirlit lögreglunnar og lendir í kröppum dansi þegar hann hefur rannsókn á yfirmanni fíkniefnadeildar lögreglunnar eftir að hafa fengið ábendingu frá fyrrverandi glæpaforingja sem situr í fangelsi. Hannes ætlar sér að slá tvær flugur í einu höggi, ná yfirmanninum og uppræta erlenda glæpaklíku sem er valdamikil í borginni og fær lögreglukonuna Andreu til liðs við sig sem glímir við fortíðardrauga. Hannes kemst í bráða lífshættu, enda svífast glæpamennirnir einskis.

Spurður að því hvort myndin sé í anda bandarískra glæpa- og lögreglumynda segir Ólafur að hún sé það að einhverju leyti, e.k. bandarísk-skandinavísk-íslensk blanda. „Svo spilar líka inn í að maður er af VHS-kynslóðinni, ólst nánast upp inni í VHS-tæki og þaðan koma alls konar straumar og stefnur.“ 

Vill ekki að framhaldsmyndin verði síðri en sú fyrri

-Ef þú berð myndirnar tvær saman, Borgríki 1 og 2, er mikill munur á þeim? Mér skilst að þessi hafi verið mun dýrari í framleiðslu og meira í hana lagt.

„Já, fyrri myndin var gerð af hópi sem langaði að gera verk í kjölfar hrunsins. Við fórum og skutum ódýra mynd, fólk gaf vinnuna sína og fékk hlutdeild á móti og það var lítið Öskubusku-ævintýri sem gekk upp. Núna fengum við stuðning frá Kvikmyndasjóði, endurgreiðslan hjálpar líka til og svo erum við með tvö erlend dreifingarfyrirtæki sem standa þétt við bakið á okkur. Þannig að Borgríki 2 er dýpri, breiðari og stærri, eins og gengur. Er þetta ekki það sama gamla, maður vill ekki að framhaldsmyndin verði síðri en sú fyrri?“ segir Ólafur og hlær.

-Borgríki var fyrsta glæpa- og hasarmyndin þín og þú hlýtur að hafa lært mikið af því að leikstýra henni. Geturðu sagt mér í hverju það fólst og hvernig þú gast nýtt þér það við gerð framhaldsmyndarinnar?

„Ætli það sé ekki fyrst og fremst reynslan af því að vinna með karaktera. Það er sama hversu atriðin eru mörg eða stór, á endanum eru það alltaf karakterarnir sem bjóða áhorfendum inn í myndina. Það er alltaf mikilvægast að einbeita sér að vinnunni hjá leikurunum og svo þegar kemur að útfærslum, áhættuatriðum og slíku, þá leitar maður til fólks sem er sérfræðingar í því.“

-Þú leitaðir einmitt til lögreglumanna þegar þú gerðir fyrri myndina. Gerðir þú það aftur fyrir þessa?

„Já, já og svo vorum við með hauk í hverju horni við útfærslur og annað,“ segir Ólafur. Myndin sé raunsæ upp að ákveðnu marki. „Á endanum er þetta afþreying; þetta er bíó. Heimurinn á að vera í samræmi við sjálfan sig,“ segir Ólafur. 

Líkamlegur klaufaskapur

-Nú hefur töluvert verið fjallað um hversu mikið var lagt í slagsmálaatriði myndarinnar. Í þeim naustu liðsinnis félaga þinna í Mjölni, var einhver einn þar sem sá um þá vinnu, slagsmálahönnun?

„Já, Jón Viðar Arnþórsson, hann er algjör meistari. Þegar handritið var gert var einfaldlega skrifað að Jón Viðar sæi um ákveðna hluta. Hann skrifar og leikstýrir þessum atriðum og hans stefna er að það sé þyngdarafl í þessu, að þetta sé trúverðugt. Að þetta sé ekki kungfú heldur líkamlegur klaufaskapur í þessu,“ segir Ólafur.

Spurður að því hvort leikararnir hafi fengið að spinna eitthvað í tökum segist Ólafur orðinn frekar íhaldssamur með árunum hvað varðar að fylgja handriti. Innan ramma hvers atriðis hafi leikarar þó fengið frelsi til að smyrja á hlutina með eðlilegum hætti. „Svo veit maður aldrei með leikarana, maður veit t.d. stundum ekkert hvað Ágústa Eva og jafnvel Ingvar ætla að gera og það er rosalega spennandi,“ segir Ólafur sposkur.

Nýr leikstjóri fyrir endurgerð

-Nú stóð til að endurgera Borgríki. Hvar er það mál statt?

„Það er þannig statt að það var sett í endurgerð hjá New Regency stúdíóinu og er komið þaðan yfir á óháða aðila. Það er kominn nýr leikstjóri að henni, James Mangold er að framleiða hana, hans fyrirtæki og konan hans og þau eru komin með nýjan leikstjóra sem ég held að ég megi ekki nefna. Það er verið að fjármagna hana, komið nýtt handrit og verið að reyna að finna einhverjar stjörnur,“ segir Ólafur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert