Göng lokast - fjörður opnast

Hvalfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð.
Hvalfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð. mbl.is/Golli

Fjölmargir munu án efa endurnýja kynni sín við Hvalfjörðinn um helgina þar sem Hvalfjarðargöngin verða lokuð vegna malbikunarframkvæmda, en göngunum verður lokað kl. 20 í kvöld og ekki opnuð aftur fyrr en kl. sex á mánudagsmorgun. Á þessum tíma árs fara um það bil 11 þúsund bílar um göngin á einni helgi.

Marínó Tryggvason, öryggisfulltrúi Spalar, rekstraraðila Hvalfjarðarganga, segir í samtali við mbl.is, að þetta séu fyrstu malbikunarframkvæmdirnar í göngunum 16 ár, eða frá því þau voru opnuð 11. júlí árið 1998. „Nú leggja menn hart að sér til að tímaramminn standi,“ segir hann ennfremur.

Spölur sendi frá sér tilkynningu á þriðjudag þar sem greint var frá lokuninni.

Hefðbundnar framkvæmdir á haustin en stærri en vant er

Vetrarfrí hófst í flestum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í dag og stendur það fram á þriðjudag. Gera má því ráð fyrir að margar fjölskyldur verði á faraldsfæti um helgina. Spurður hvort einhverjir hafi gert athugasemdir við að framkvæmdirnar eigi sér stað á sama tíma segir Marínó: „Þessi eini, hann verður alltaf til. En þetta er hefðbundinn framkvæmdatími hjá okkur á haustin. Eina sem er frábrugðið er að nú þurfum við að loka vegna stærri framkvæmda en við höfum áður verið í.“

Aðspurður segir Marínó að ferðatíminn lengist um u.þ.b. 40 mínútur þegar menn þurfi að aka Hvalfjörðinn, sem er um 60 km langur, í stað þess að fara göngin, sem eru tæplega 6 km löng. Hann bendir á að Hvalfjörðurinn sé „bæði fallegur og fær. Það er gott veður og veðurútlitið er gott“.

Fjörðurinn hefur upp á margt að bjóða

Þeir sem þekkja til fjarðarins vita að hann hefur upp á margt að bjóða. Hvalfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð, en þar er m.a. að finna næsthæsta foss landsins, Glym, sem er í Botnsá í Botnsdal. Fossinn er 198 metra hár. 

Síldarmannagötur eru gönguleið sem liggur frá Hvalfirði yfir í Skorradal, n.t.t. frá Botnsdal í Hvalfirði yfir í Skorradal um Svínadal. Margir hafa farið þessa leið, sem er á meðal vinsælustu gönguleiða landsins.

Áður voru þrjár vegasjoppur á svæðinu: Botnsskálinn, Miðsandur og Ferstikla. Nú er aðeins sú síðastnefnda eftir og sú er raunar aðeins opin yfir sumarið, en þar er m.a. finna Litla hvalasafnið, þar sem sjá má sýningu um sögu hvalveiða við Ísland. 

Fram kom í Morgunblaðinu í gær, að Guðjón Sigmundsson, sem er betur þekktur sem Gaui litli, ætti von á fjölmenni um helgina á kaffihúsið Hvíta fálkann, sem hann rekur, auk   Hernámssetursins, sem er safn tileinkað umsvifum bandamanna á þessum slóðum í síðari heimsstyrjöld.

Í firðinum er einnig að finna Hvalstöðina sem var reist árið 1948 á vegum Hvals hf. til að unnt væri að landa og vinna hval þar.

Göngin skipta máli

Hvað malbikunina varðar, þá verður unnið á vöktum en á bilinu 20 til 30 starfsmenn vertakafyrirtækisins Hlaðbæjar-Colas koma að framkvæmdinni. Göngin verða hins vegar ekki alveg lokuð, því greitt verður fyrir því að bifreiðir í neyðarakstri, s.s. sjúkrabílar og slökkviliðsbílar, komist um þau á framkvæmdatímanum.

Marínó bætir við að það sé notalegt að finna það að göngin skipti fólk máli. „Allir vilja hafa þau í standi en það vill enginn láta þau stoppa,“ segir hann að lokum.

Hvalfjarðargöngin opnuðu í júlí 1998 og hafa ekki verið malbikuð …
Hvalfjarðargöngin opnuðu í júlí 1998 og hafa ekki verið malbikuð síðan þá. Árni Sæberg
Ferstikluskáli er eina vegasjoppan sem er enn starfrækt í firðinum.
Ferstikluskáli er eina vegasjoppan sem er enn starfrækt í firðinum. mbl.is/Árni Sæberg
Fjallið Þyrill gnæfir yfir fjörðinn.
Fjallið Þyrill gnæfir yfir fjörðinn. mbl.is/Sigurður Bogi
Hér má sjá Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði, eða Saurbæjarkirkju, …
Hér má sjá Hallgrímskirkju í Saurbæ í Hvalfirði, eða Saurbæjarkirkju, sem er helguð minningu Hallgríms Péturssonar. mbl.is/Árni Sæberg
Brúin yfir Bláskeggsá.
Brúin yfir Bláskeggsá. mbl.is/Sigurður Bogi
Hvalveiðar hafa verið nátengdar firðinum í marga áratugi.
Hvalveiðar hafa verið nátengdar firðinum í marga áratugi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert