Bílvelta á Fjarðarheiði

Skjáskot af vef Vegagerðarinnar

Lögreglan á Egilsstöðum hefur haft í nógu að snúast í dag, en margir bílstjórar hafa lent í vandræðum vegna færðar. 

Bílvelta varð á Fjarðarheiði fyrr í dag. Að sögn lög­regl­u voru eng­in slys á fólki, en bíllinn valt og er mikið skemmdur. 

Auk þess hefur fjöldi bílstjóra lent út af vegi, eða átt í vandræðum vegna færðar. Samkvæmt veðurspá er veðrið á Austfjörðum að versna og því hvetur lögregla fólk til að fara ekki upp á heiðar eða fjöll nema á vel búnum bílum.

Það eru hálkublettir og skafrenningur á Sandskeiði en hálka og skafrenningur á Hellisheiði og eins víða á Suðurlandi, jafnvel krap eða snjóþekja í uppsveitum.

Hálka, skafrenningur og éljagangur er á fjallvegum á Vesturlandi, eins eru sumstaðar hálkublettir í Dölum. Það éljar á Vestfjörðum og sumstaðar er skafrenningur. Hrafnseyrarheiði er ófær og þæfingsfærð er á Dynjandisheiði. Annars er snjóþekja, krap eða nokkur hálka allvíða á Vestfjörðum og Ströndum.

Hálka, hálkublettir og skafrenningur er víða á Norðurlandi vestra sem og í Mývatnssveit en hálka, krapi og éljagangur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Það snjóar á Austurlandi og víða er snjóþekja, krapi eða hálka, einkum á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Breiðdalsheiði en Öxi er ófær. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert