Skordýr vannýtt náttúruauðlind

AFP

„Þetta eru í raun hagsmunasamtök þeirra sem starfa á þessum vettvangi gagnvart stjórnvöldum en um leið er þeim ætlað að stuðla bæði að fræðslu út á við og vera vettvangur fyrir þá sem starfa í greininni til þess að skiptast á upplýsingum sín á milli,“ segir Gylfi Ólafsson, formaður Skordýrasamtakanna sem stofnuð voru á dögunum. 

Fram kemur í fréttatilkynningu að Skordýrasamtökin séu heildarsamtök þeirra sem stundi þegar eða stefni að rækt eða markmissri nýtingu landhryggleysingja. Gylfi segir í samtali við mbl.is að ekki skipti máli með hvaða hætti skordýr séu nýtt eða ætlunin sé að nýta þau frá sjónarhóli félagsins. Hann bendir á að skordýr séu gríðarlega fjölbreytt og hægt að nýta þau í margt. Hann nefnir til að mynda í því sambandi býflugnabú og moltugerð og í efnaiðnað eins og við framleiðslu á silki. Þá séu skordýr nýtt í gróðurhúsum til þess að halda öðrum minni skordýrum frá. 

Eitt af því sem þurfi að breyta sé lagaumhverfið en skordýrarækt sé í dag flokkuð einfaldlega með hverri annarri búfjárrækt en í raun þurfi á sérstökum lagaramma að halda vegna sérstöðu greinarinnar. Hann segir spennandi tíma framundan í greininni. Mikil gróska sé í rannsóknum og tilraunum hér á landi og erlendis. Nýting skordýra hér á landi hafi þó ekki verið mikil hér á landi til þessa. Þar hafa einkum komið við sögu býflugnaræktendur. Hins vegar hafi ánamaðkar, flugur og krybbur verið nýttar í seinni tíð á fjölbreyttan hátt.

„Þetta er þannig í raun spurning um að nýta ákveðna náttúruauðlind betur en gert hefur verið til þessa en nýting skordýra er bæði hagkvæm, umhverfisvæn og atvinnuskapandi,“ segir Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert