Umsóknum fjölgað um helming árlega

Hælisumsóknir hér á landi hafa aukist um 50% frá ári til árs frá árinu 2009. Þannig voru umsóknir um hæli 172 á síðasta ári en 118 á árinu 2012, 76 árið 2011, 51 árið 2010 og 35 á árinu 2009. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslum Útlendingastofnunar sem birtar voru í dag.

Fjölmennustu hóparnir sem sóttu um hæli á síðasta ári þegar horft er til þjóðernis komu frá Króatíu og Albaníu eða samtals 82 einstaklingar. Þar af 40 frá Albaníu og 42 frá Króatíu. Þriðji stærsti hópurinn kom frá Rússlandi eða níu manns. Þá komu sjö frá Sýrlandi og sex frá Írak. Þetta er töluverð breyting frá árinu 2012 þegar stærstu hóparnir komu frá Nígeríu (19) og Íran (12) en þriðji stærsti hópurinn þá kom frá Albaníu eða 11 einstaklingar. Fjórði fjölmennasti hópurinn það árið var frá Afganistan eða 9 manns. Sé árið 2011 skoðað voru stærstu hóparnir frá Nígeríu (7), Rússlandi (6) og Alsír (6) og dreifingin þannig mun jafnari.

Flestir hælisleitendur á síðasta ári voru karlkyns eða 74% umsækjenda. Samtals 59% voru fullorðnir karlmenn eða 101 einstaklingur og 15% drengir eða 26 talsins. Fullorðnar konur voru 20% eða 34 manns og stúlkur 6% eða 11 einstaklingar.

Samtals fengu 11 manns hæli hér á landi á síðasta ári og einn einstaklingur til viðbótar hlaut dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 110 manns var hins vegar synjað um hæli og 59 umsóknir féllu undir svokallaða Dyflinnarreglugerð sem felur í sér að öðru aðildarríki hennar beri að taka viðkomandi umsóknir til meðferðar. 25 manns drógu hins vegar umsóknir sínar til baka eða hurfu af landi brott og 56 mál voru enn til afgreiðslu í lok ársins. Til samanburðar var 43 málum ólokið í árslok 2011 og 80 í lok árs 2012.

Fram kemur í skýrslunni að ástæðu þess að 110 hælisumsóknum var synjað megi rekja fyrst og fremst til hás hlutfalls umsækjenda frá Króatíu og Albaníu. Vegna aðstæðna í ríkjunum sé mjög lágt hlutfall hælisleitenda frá þeim sem eigi rétt á hæli eða alþjóðlegri vernd. Aðrar umsóknir hafi þurft að bíða úrvinnslu vegna forgangs þessara umsókna. Hins vegar megi gera ráð fyrir að jafnara hlutfall á milli veitinga og synjana verði á þessu ári.

Kærur til innanríkisráðuneytis vegna ákvarðana Útlendingastofnunar um umsóknir um hæli voru 164 á síðasta ári. Fram kemur að ráðuneytið hafi úrskurðaði í 56 málum en sjö einstaklingar hafi dregið kærur sínar til baka. Ráðuneytið hafi staðfest niðurstöðu stofnunarinnar í 54 málum en tveimur synjunum hafi hins vegar verið hnekkt og þeim vísað aftur til meðferðar hjá stofnuninni.

Frétt mbl.is: Alls ekki verið að loka landinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert