Alls ekki verið að loka landinu

„Við erum að tala um að dvalarleyfi séu samþykkt í um það bil 90% tilfella. Sú mynd er nefnilega alls ekki rétt sem stundum hefur verið dregin upp að hér sé verið að loka landinu,“ segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, í samtali við mbl.is en ársskýrslur stofnunarinnar komu út í dag. Þar kemur meðal annars fram að 3.076 umsóknir um dvalarleyfi hér á landi hafi borist á síðasta ári og af þeim hafi 2.883 verið samþykktar.

Kristín segir að talsverð breyting hafi orðið eftir bankahrunið haustið 2008 varðandi veitingu dvalarleyfa. Fyrir þann tíma hafi stærsti flokkurinn verið dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku en eftir hrunið hafi hins vegar atvinnuframboð dregist gríðarlega saman. Í kjölfarið hafi orðið aukning í dvalarleyfum á grundvelli fjölskyldusameiningar og sá flokkur fljótt orðið stærstur. Hún bendir á að í raun sé um skiljanlega þróun að ræða. Fyrir bankahrunið hafi verið einfaldara að fá dvalarleyfi á grundvelli atvinnu þegar hana hafi verið að fá hér. Þegar þær aðstæður hafi breyst hafi fólk eðlilega horft til annarra flokka sem hafi staðið því til boða.

Mikill árangur hefur náðst hjá Útlendingastofnun þegar kemur að meðferð hælisumsókna að sögn Kristínar. Þannig hafi 150 mál verið afgreidd á síðasta ári og tekist að vinna mjög á uppsöfnuðum hala af málum hjá stofnuninni. Það sé ekki síst að þakka átaki sem hafist hafi hjá Útlendingastofnun í september 2012. Þá hafi vandinn verið viðurkenndur og fékk stofnunin í kjölfarið tvo viðbótarstarfsmenn. Í mars á síðasta ári hafi síðan verið fallist á að fara í átak bæði af hálfu Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins. Þá hafi fengist tveir starfsmenn til viðbótar. Hún segir starfsmenn stofnunarinnar hafa skilað ótrúlega mikilli og góðri vinnu sem hafi skilað sér í þeim árangri sem náðst hafi.

Málsmeðferð gangi áfram fjótt fyrir sig

„Mér finnst árangurinn á síðasta ári alveg stórkostlegur. Þetta átak hefur sannarlega skilað árangri. Það er alveg ljóst að lausnir innanríkisráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar eru virkilega að skila sér með þessum hætti. Hins vegar getur þetta ekki verið bráðabirgðaúrlausn sem sést einfaldlega á tölunum. Það er ekki fækkun á hælisumsóknum ár frá ári heldur þvert á móti veruleg fjölgun. Þannig að það sem hófst sem átak verður að minnsta kosti í okkar huga að vera komið til að vera. Allavega að hluta til. Annars fara hlutirnir í sama farveginn. Það er næsta áskorun að okkar áliti að tryggja að málsmeðferðin verði áfram ekki aðeins sanngjörn heldur einnig skjót,“ segir hún. Þannig hafi hælisumsóknum fjölgað um 50% á ári frá árinu 2009.

Kristín bendir á að staðan í dag sé sú að málahali sem var 56 mál 25. ágúst sé nú kominn í 34 mál. Mál sem komið hafa inn eftir 25. ágúst eru ekki talinn með hér. Þannig hafi gengið mjög vel við að afgreiða mál jafnvel yfir sumartímann. Hins vegar hafi tekið við ný málsmeðferð 25. ágúst samkvæmt fyrirmælum frá ráðuneytinu en samkvæmt henni þarf að afgreiða öll ný mál á innan við 90 dögum. Það þýði að halinn sé að vissu leyti settur til hliðar þar sem ný mál hafi forgang. Hins vegar sé unnið að því að tryggja tímabundinn viðbótar mannskap til þess að klára eldri mál. Hún bendir á að ekki sé þó um mjög gömul mál að ræða en það elsta sé frá því í apríl á síðasta ári. Flest séu frá þessu ári. Þarna sé hins vegar um tímabundna áskorun að ræða. Önnur áskorun sé að tryggja að hægt verði áfram að afgreiða þau mál sem komi til kasta stofnunarinnar fljótt og vel til hagsbóta fyrir alla þá sem koma að málum. Ekki síst hælisleitendur.

Aukið fjárframlag sparar ríkissjóði fé

„Sem lítið dæmi þá þurfum við ekki nema fimm lögfræðinga til þess að klára þennan hala á 5-6 mánuðum og hann er þá farinn. Ef hins vegar ekkert miðar í þeim efnum felur það bæði í sér vanlíðan fyrir það fólk sem á í hlut og gífurlegan kostnað fyrir ríkissjóð. Bara sem einfalt dæmi. Ef við settum einn lögfræðing í að afgreiða þennan hala þá myndi það taka hann meira en tvö ár og umönnunarkostnaður yrði yfir 170 milljónir króna. En fimm lögfræðingar í sex mánuði kosta undir 20 milljónum og umönnunarkostnaður er 40 milljónir króna. Þannig að þetta er í raun borðleggjandi. Ríkissjóður er í raun að spara fjármuni þegar upp er staðið með því að setja aðeins meiri fjármuni í starfsemina. Fyrir utan mannlega þáttinn sem skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli,“ segir hún.

Þá bendir hún á að Útlendingastofnun sé í nánu samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem reglulega hefur komið til landsins til þess að taka út málsmeðferð stofnunarinnar. „Við höfum líka samhliða því að leggja áherslu á hraðari afgreiðslu mála verið í mjög nánu samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar hennar hafa komið hingað nokkrum sinnum og tekið út málsmeðferðina hjá okkur og lagt til tillögur að breytingum. Til hröðunar og til betrumbóta fyrir hælisleitendur. Þannig að við erum í mikilli framþróun hér og öll að vilja gerð til þess að gera betur. Þannig að hvað hælismálin varðar tel ég að við séum komin á ágætan stað þó svo að alltaf megi gera betur.“

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert