„Fyrir nákvæmlega ári féll dómur hjá Mannréttindadómstól Evrópu í málaferlum sem tveir blaðamenn höfðuðu gegn íslenska ríkinu. Fleiri mál bíða."
Fyrir nákvæmlega ári féll dómur hjá Mannréttindadómstól Evrópu í málaferlum sem blaðamennirnir Björk Eiðsdóttir og Erla Hlynsdóttir höfðuðu gegn íslenska ríkinu. Íslenska ríkið tapaði málinu og var talið hafa brotið gegn 10.gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Dómurinn leggur þá kvöð á íslenska ríkið að bregðast við og bæta úr. Því miður verður ekki séð að svo hafi verið gert, áfram þurfa íslenskir blaða- og fréttamenn að leita til Mannréttindadómstólsins til að fá úrlausn sinna mála. Íslenskir dómstólar ætla í það minnsta ekki að breyta vinnubrögðum sínum. Fyrir þeim eru úrskurðir Mannréttindadómstólsins hljómið eitt. Ekki verður heldur séð að dómsmálaráðuneytið (sem kenndi sig við mannréttindi í viðaukaheiti) og nú innanríkisráðuneytið hafi sýnt niðurstöðunni nokkurn áhuga eða sjái ástæðu til að breyta vinnubrögðum sínum. Innanríkisráðuneytið hefur kosið að halda áfram að reka mál af sama meiði fyrir Mannréttindadómstólnum, rétt eins og það hafi ekkert ákvörðunarvald þar um. Og stundum er eins og ekkert breytist. Mörgum finnst að niðurstaða Þorgeirsmálsins svokallaða frá 1992 hafi ekki orðið íslensku réttarfari sú lexía sem í dómnum fólst. Í þeim dómi benti Mannréttindadómstóllinn íslenskum dómurum hæversklega á að málfrelsi væri ekki einungis til að tíunda almælt tíðindi heldur væri það einmitt lögfest til að tryggja fólki rétt til að segja það sem fáheyrt væri og sumum kynni jafnvel að þykja móðgandi. Niðurstaða og lærdómur þess máls var furðu fljót að hverfa úr minni íslenskra dómstóla.

Gagnrýni Mannréttindadómstólsins á vinnubrögð íslenskra dómstóla var hörð en það var niðurstaða dómsins að íslenskir dómstólar hafi virt að vettugi þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki 10. gr. MSE. Í báðum þessum málum var komist að þeirri niðurstöðu fyrir innlendum dómstólum að greinarskrif Erlu Hlynsdóttur í DV annars vegar og Bjarkar Eiðsdóttur í Vikunni hins vegar hefðu falið í sér meiðandi ummæli. Viðkomandi ummæli sem deilt var um í þessum málum voru að meginstefnu í tengslum við starfsemi nektardansstaða hér á landi. Í báðum málunum var sakfellt fyrir meiðandi aðdróttun sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það þótti sérstaklega hart aðgöngu að dæma blaðamenn fyrir ummæli er sannarlega voru höfð eftir öðrum. Ekki er síður alvarlegt að þegar niðurstaða Mannréttindadómstólsins er lesin sést að málsmeðferð í þessum tveimur málum var mjög ábótavant og meira að segja áhöld um að um sanngjarna málsmeðferð hafi verið að ræða. Og það gagnvart tveimur blaðakonum hjá fjárvana fjölmiðlum sem voru að reyna að varpa ljósi á jafn alvarleg vandamál og vændi og mansal. Ekki verður annað séð en að Hæstiréttur Íslands hafi í dómnum verið sérstaklega átalinn fyrir málsmeðferðina sjálfa og því getur dómurinn ekki skýlt sér á bak við að hann hafi aðeins verið að dæma að lögum.

En nú skyldu flestir halda að svo alvarleg skilaboð frá Mannréttindadómstólnum hefðu einhver áhrif í íslenska réttarríkinu. Jafnvel valda skjálfta, kalla á fundi og umræður í réttarkerfinu. Svo virðist hins vegar ekki vera og blaðamenn eru dæmdir sem áður og verða að halda áfram að sækja tjáningarfrelsi sitt til útlanda. Blaðamannafélag Íslands hefur séð sig knúið til að koma að mörgum þessara mála þrátt fyrir þröngan fjárhag. Þannig eru tvö önnur mál er tengjast Erlu Hlynsdóttur komin fyrir Mannréttindadómstólinn. Þrátt fyrir að þau séu mjög keimlík því máli sem Erla vann þar fyrir ári hefur innanríkisráðuneytið ekki séð sóma sinn í að taka sátt í málunum og sætta sig við fordæmi dómstólsins frá því á síðasta ári. Ráðuneytið hefur kosið að eyða skattfé borgaranna í, að því er virðist tilgangslítinn málarekstur, aðeins til þess að fá endurtekna flengingu fyrir Mannréttindadómstólnum. Hafa verður í huga að íslenska ríkinu var gert að greiða Björk 37.790 evrur, rúmar sex milljónir króna, og Erlu 21.500 evrur, 3,5 milljónir króna auk þess að bera sinn kostnað af málinu sjálft.

Síðan þetta var hefur það gerst að dagblaðið DV hefur séð sig knúið til að skjóta tveimur málum er varða blaðamenn þess til Mannréttindadómstólsins, að hluta til með aðstoð Blaðamannafélagsins. Í síðasta mánuði var síðan greint frá því að Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður, og Ríkisútvarpið hefðu sameiginlega ákveðið að una ekki dómi Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn Svavari, sem féll í nóvember síðastliðnum. Kæran byggðist á því að með dómi Hæstaréttar hinn 15. nóvember 2012 í máli nr. 69/2012 hefði verið brotið gegn rétti Svavars skv. 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Því eru nú fimm mál blaðamanna á leiðinni fyrir Mannréttindadómstólinn. Í öllum tilvikum mun íslenska ríkið hafa mikinn kostnað af þessum málum en lítinn sóma. Er ekki mál að linni þessari aðför að tjáningarfrelsinu og íslenska réttarkerfið fari að meðtaka skilaboð Mannréttindadómstólsins?

Höfundar eru formaður og varaformaður Blaðamannafélags Íslands.