Kópavogsbær ekki bótaskyldur

Snjóþungt og hálka var á höfuðborgarsvæðinu í morgun og hafði vetrarfærðin áhrif á ferðir margra. Var ástandið sérstaklega slæmt í Kópavogi en vegna mannlegra mistaka hófst mokstur þar ekki fyrr en klukkan átta í morgun.

Að sögn almannatengils Kópavogsbæjar, Sigríðar Bjargar Tómasdóttur, höfðu fjölmargir bæjarbúar samband við þjónustuver Kópavogs í morgun vegna færðarinnar.

„Bænum bárust fjölmargar hringingar og fyrirspurnir. Það var verið að spyrja um söltun, benda á hálku á götum bæjarins og fleira. Þetta voru ýmist ábendingar, spurningar og kvartanir,“ segir Sigríður Björg í samtali við mbl.is.

Bætir hún við að nú sé verið að vinna í því að fara í gegnum ábendingarnar og síðan verður unnið úr þeim. Sigríður gat ekki tjáð sig um um hvers konar mannleg mistök var að ræða í morgun en segir að það mál verði skoðað.

Að sögn Sigríðar sér verktaki um mokstur á götum bæjarins en verkinu er stýrt af starfsmönnum bæjarins.

Aðspurð segir Sigríður að Kópavogur líti ekki svo á að bærinn sé bótaskyldur vegna mögulegs tjóns á ökutækjum í hálkunni í morgun.

Í yfirlýsingu sem barst frá Kópavogsbæ fyrr í dag kemur fram að verklagsreglur varðandi mokst­ur gatna og sölt­un í bæjarfélaginu verði nú endurskoðaðar.

Kópavogsbær endurskoðar verklagsreglur

Mannleg mistök í Kópavogi

Aldrei upplifað annað eins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert