„Mun minni þátttaka hjá körlum“

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður Steinunn Ásmundsdóttir

„Það var mun minni þátttaka hjá körlum en konum,“ segir Sigurveig Gísladóttir, fulltrúi velferðarnefndar sem fer með jafnréttismál í Seyðisfjarðarkaupstað um könnun sem lögð var fyrir starfsfólk bæjarins á síðasta ári. Í könnuninni voru jafnréttismál, launamál, einelti og kynferðisleg áreitni skoðuð.

Jafnréttisstofa átti fund með þeim Sigurveigu og Evu Björk Jónudóttur, jafnréttisfulltrúa sveitarfélagsins, í byrjun október þar sem þær kynntu könnunina. Frétt um málið birtist á vef Jafnréttisstofu fyrr í dag.

Þar kemur fram að spurningalistar hafi verið sendir til fimmtíu og sjö starfsmanna. Svarhlutfallið var 68,5% sem telst nokkuð gott, ekki síst í ljósi þess að þetta var í fyrsta skipti sem könnun af þessu tagi er lögð fyrir hjá sveitarfélaginu. Það kom þó nokkuð á óvart hversu mikill munur var á svarhlutfalli kynjanna en karlar voru mun tregari til svara en konur.

„Það er rosalega auðvelt að grípa þetta á lofti,“ segir Sigurveig, „en í fyrsta lagi held ég að ástæðan sé sú að stór hluti starfar í skólanum og leikskólanum þar sem konur eru í meirihluta. Þar er starfsfólk vant að svara könnunum svo það var góð þátttaka þar. Í störfunum þar sem karlmenn eru í meirihluta eru menn hins vegar oft að vinna hingað og þangað um bæinn, svo það er erfiðara fyrir forstöðumenn þar að virkja starfsfólk til þátttöku.“

Hún segir þó ómögulegt að gefa eina ástæðu fyrir lélegri svörun karla, en segir að þessi ástæða sé sú sem höfundar könnunarinnar sjái fyrir sér.

Spurningalistinn var unninn í samvinnu við Jafnréttisstofu en könnunin sjálf og úrvinnslan var alfarið í höndum jafnréttisfulltrúa og fræðslunefndar, sem fór með jafnréttismálin á síðasta kjörtímabili. Könnunin sýnir mikinn metnað af hálfu nefndarinnar og jafnréttisfulltrúa og er að mati Jafnréttisstofu hvatning fyrir önnur sveitarfélögum til góðra verka í jafnréttismálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert