Þekkir einhver Ólafsfirðingana?

Hópmynd af góðu fólki úr safni Brynjólfs Sveinssonar. Ættingjar hans …
Hópmynd af góðu fólki úr safni Brynjólfs Sveinssonar. Ættingjar hans setja nú upp sýningu ásamt Minjasafni Akureyrar á verkum Brynjólfs. Ljosmynd/Brynjólfur Sveinsson

Sextán ára gamall hóf Brynjólfur Sveinsson að ljósmynda. Síðar varð hann kaupmaður og stöðvarstjóri Pósts og síma og þrátt fyrir annríki var hann alla tíð ötull ljósmyndari. Myndir Brynjólfs hafa aldrei verið á sýningu áður en þær skipta þúsundum og spanna tímabilið frá árinu 1930 til 1981 og eru flestar teknar á Ólafsfirði. Afkomendur Brynjólfs ætla að heiðra minningu hans með sýningu á myndunum á hundrað ára fæðingarafmæli hans.

Hinn 26. október árið 1914 fæddist Brynjólfur Sveinsson en hann lést árið 1981. Það er vel við hæfi að sýning á verkum hans sé opnuð á 100 ára fæðingarafmæli hans. Brynjólfur var um margt óvenjulegur maður og frumkvöðull á ýmsum sviðum. Til að mynda flutti hann inn íþróttavörur þegar hann var tvítugur, tók við verslun fóstra síns rúmlega þrítugur, var virkur í félagsstarfi ýmiss konar og síðast en ekki síst einstaklega afkastamikill ljósmyndari frá 16 ára aldri. Ekki má gleyma að hann var gjarnan með kvikmyndatökuvél með sér og var Ríkissjónvarpinu innan handar á fyrstu árum þess.

Tvö eftirlifandi barna Brynjólfs, þær Helga Pálína og Ragnheiður hafa að undanförnu notið dyggrar aðstoðar Minjasafnsins á Akureyri við úrvinnslu ljósmynda Brynjólfs því nú á að sýna verkin. Myndirnar hafa verið varðveittar á Minjasafninu og eru á milli 3 og 4.000 talsins.

Fólkið á myndunum

Ekki eru til mörg myndasöfn frá Ólafsfirði sem sýna mannlífið frá árinu 1930 og fram til 1960 og því er óhætt að segja að myndir Brynjólfs gefi bæði einstaka og samfellda mynd af bæjarlífinu. Hins vegar er ekki alltaf ljóst hvaða fólk er á þessum myndum og þar reynir á minni eldri íbúa bæjarins sem vonandi hafa tök á skoða myndirnar á sýningunni næstu tvær helgar í anddyri menntaskólans á Tröllaskaga, í Ólafsfirði. Vonir standa til að hægt verði að sýna myndirnar á fleiri stöðum ef áhugi er fyrir því. Einnig verða nokkrar stuttar kvikmyndir sýndar úr safni Brynjólfs.

„Honum vannst aldrei tími til að vinna úr þessum myndum,“ segir Helga Pálína, dóttir Brynjólfs. „Í tæp tuttugu ár, eða frá 1997, hefur Minjasafn Akureyrar varðveitt filmurnar og nú urðum við að drífa í því að sýna þessar myndir, bæði til að heiðra hann og til að fá að nýta okkur það fólk sem ennþá þekkir þá sem eru á elstu myndunum sem eru frá því á milli 1930 og 1940,“ segir hún.

Grannt og prúðbúið fólk

Myndir Brynjólfs segja sögu Ólafsfjarðar út frá sjónarhóli íbúa sem var virkur í félagslífi bæjarins. „Þær sýna hvað var um að vera í bænum um og yfir 1950 og margt af því sterkir viðburðir í sögu svona lítils bæjarfélags. Pabbi var mjög virkur í öllu félagslífi bæjarins og var til dæmis í ungmennafélagsstarfi og ungmennafélagið var mjög sterkt á þessum tíma. Um miðjan fimmta áratuginn bjuggu þau til dæmis til sundlaug og gáfu bænum,“ segir Helga. Brynjólfur mætti að sjálfsögðu með myndavélina þegar sundlaugin var vígð og á sýningunni verður meðal annars myndaröð frá vígsluathöfninni þann 1. júní 1945. „Þá var allt fólkið prúðbúið í kring og svo má sjá myndir af tíu ára stúlku, Freydísi Bernharðsdóttur, sem fyrst fékk að stinga sér í laugina. Hún lést fyrir stuttu en var fædd 1935. Hann náði myndum af henni þar sem hún var rétt að stinga sér og svo eru tvær myndir af henni þar sem hún er á sundi. Þannig að í safninu eru bæði skemmtilegar seríur, áhrifaríkar og fræðandi,“ segir Helga. Nánar er fjallað um áður óbirtar myndir, t.d. átakanlegar myndir tengdar Héðinsfjarðarslysinu í ramma hér til hliðar.

Þegar mannlífsmyndir frá fyrri hluta síðustu aldar eru skoðaðar er sannarlega margt verulega frábrugðið mannlífsmyndum frá því á okkar dögum. „Í fyrsta lagi er það útlitið á fólkinu. Það eru allir grannir þarna og allir prúðbúnir, til dæmis í lautarferðum og berjaferðum. Og svo var fólk mjög mikið með höfuðföt. Það er eitt af því sem nú er horfið,“ segir Helga.

Líf og fjör á Ólafsfirði

Eins og gefur að skilja eru fáar myndir til af Brynjólfi sjálfum, þó svo að hann hafi einstaka sinnum brugðið sér fram fyrir linsuna. Hann hafði í fjölmörgu að snúast við að mynda bæjarbúa og því eru líka myndir af einstaklingum í safninu góða, auk mynda af síldarvinnslu og atvinnulífi almennt. „Þó að hann væri ekki með ljósmyndastofu tók hann myndir af fólki bæði fyrir vegabréf og nafnskírteini. Hann vann á pósthúsinu og svo kom fólk seinnipartinn eða á kvöldin og stillti sér upp fyrir framan rennihurðina á pósthúsinu eftir að því var lokað því símstöðin var opin lengur,“ segir Helga Pálína um föður sinn, Brynjólf Sveinsson, sem hafði iðulega nóg fyrir stafni bæði í frítíma sínum og vinnu.

Þegar 25 manns fórust

Hinn 29. maí árið 1947 fórst vél Flugfélags Íslands í hlíðum Hestfjalls við Héðinsfjörð. Í vélinni, sem var af gerðinni Douglas Dakota (DC3), var 21 farþegi og fjögurra manna áhöfn og var hún á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar, Skemmst er frá því að segja að vélinni virðist hafa verið flogið beint inn í fjallshlíðina. Allir létust en aldrei hafa jafnmargir Íslendingar látist í einu flugslysi. Slæmt skyggni var daginn sem slysið varð en leitað var úr lofti daginn eftir og fannst flak vélarinnar þá. Aðkoman var að sögn leiðangursmanna skelfileg og útlit fyrir að kviknað hefði í vélinni skömmu eftir að hún brotlenti.

Búið var um hina látnu og þeir fluttir niður í fjöru. Þaðan var siglt með þá til Ólafsfjarðar þar sem búið var um jarðneskar leifar hinna látnu á börum sem fluttar voru með vélbátnum Atla EA til Akureyrar. Einstakar myndir af börunum sveipuðum íslenska fánanum eru til í safni Brynjólfs Sveinssonar sem fylgdist með á þessari sorglegu stundu í Ólafsfirði fyrir tæpum 70 árum. Minningarathöfn var haldin á Akureyri um kvöldið, hinn 30. maí.

Höfnin á Ólafsfirði á fjórða áratugnum.
Höfnin á Ólafsfirði á fjórða áratugnum. Ljósmynd/Brynjólfur Sveinsson.
Helga Pálína Brynjólfsdóttir.
Helga Pálína Brynjólfsdóttir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert