Vetur konungur minnir á sig víða

Íbúar Akureyrar láta snjóinn ekki á sig fá. Blaðamaður mbl.is …
Íbúar Akureyrar láta snjóinn ekki á sig fá. Blaðamaður mbl.is á Akureyri smellti þessari mynd af fjölskyldu sem rölti um bæinn fyrr í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Skólaakstri var aflýst í morgun og almenningssamgöngur fóru úr skorðum,“ segir Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæj­ar­stjóri Fjalla­byggðar, um veðrabrigðin á Sigluf­irði og í Ólafs­firði. Mikill skafrenningur og ofankoma gekk yfir landið í nótt og vöknuðu því íbúar víðs vegar um landið upp við snævi þakta jörð í morgun. 

Sigurður segir að nú sé búið að „ryðja allt sem ryðja þarf“, svo samgöngur séu komnar í eðlileg horf. Nemendum í Grunnskóla Fjallabyggðar var kennt í sitt hvoru lagi á Siglufirði og á Ólafsfirði og hafði veður því ekki áhrif á kennslu. „Veðrið er ekki slæmt í sjálfu sér í dag. Í gærkvöldi og nótt kom þó skellurinn,“ segir Sigurður, en skafrenningur, ofankoma og sviptivindar gengu yfir Norðurland í gær og nótt.

Umferð á landinu öllu hefur gengið hægt fyrir sig í dag og mikið verið um umferðarteppur. Þá eru miklar annir hjá björgunarsveitum víða um land vegna veðurs.

Yngstu nemendum haldið inni á Seyðisfirði

Ef tekið er mið af útköllum björgunarsveita virðist sem veðrið sé einna verst á Austfjörðum. Þrjár sveit­ir hafa verið kallaðar út á svæðinu í morg­un, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg.

Björg­un­ar­sveit­in Hérað á Eg­ils­stöðum ferjaði um 30 manns til Eg­ilsstaða eft­ir að rúta með starfs­fólki Alcoa fór út af í Fagra­dal. Eng­in meiðsl urðu á fólki en mik­il hálka er á veg­in­um um dal­inn. Björg­un­ar­sveit­in Svein­ungi á Borg­ar­f­irði eystra fór á bát út á fjörðinn að sækja lok er fokið hafði af heit­um potti. Vont var í sjó­inn og var snúið við áður en lokið fannst.

Á Seyðis­firði fauk hluti af gafli húss í bæn­um. Björg­un­ar­sveit­in Ísólf­ur var kölluð út og festi það sem eft­ir var af gafl­in­um og lokaði gat­inu sem hafði mynd­ast.

Samkvæmt Þorsteini Arasyni, skólastjóra Seyðisfjarðarskóla, er ástandið í bænum þó ágætt, og hafði veður ekki áhrif á skólahald. Yngstu nemendum var þó haldið inni í frímínútum en þeir eldri fóru út og léku sér þrátt fyrir vind. Ekki er mikið um snjó á svæðinu.

Ástandið á höfuðborgarsvæðinu verst í Kópavogi

Í Reykja­vík voru all­ir starfs­menn við snjómokst­ur ræst­ir út klukk­an hálf­fjög­ur í nótt þegar ljóst varð í hvað stefndi. Þar var búið að salta all­ar helstu leiðir fyr­ir klukk­an sex í morg­un og eins var byrjað að moka göt­ur um svipað leyti. 

Snjóþungt og hálka var á höfuðborg­ar­svæðinu í morg­un og hafði vetr­ar­færðin áhrif á ferðir margra. Var ástandið sér­stak­lega slæmt í Kópa­vogi en vegna mann­legra mistaka hófst mokstur þar ekki fyrr en klukk­an átta í morg­un.

Hálka og snjóþekja víða um land

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hálka og snjóþekja víðast hvar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Á Norðurlandi vestra er einnig hálka eða hálkublettir en snjóþekja á Þverárfjalli. Snjóþekja og skafrenningur er í Víkurskarði og hálka eða snjóþekja víðast hvar á norðausturströndinni. Snjóþekja og óveður er á Hálsum og Hófaskarði og hálka og skafrenningur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur. Hálka og óveður er á Fjarðarheiði og hálka og skafrenningur á Vatnsskarði eystra. Þungfært er á Breiðdalsheiði en Öxi er ófær. Greiðfært er á Suðausturlandi, þó er óveður í Berufirði og Hamarsfirði.

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Norðvestan 18-25 m/s og snjókoma eða él á N- og A-landi, hvassast á annesjum, en annars yfirleitt mun hægari og þurrt og bjart að mestu. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu í dag. Norðvestan 10-15 og él NA-til í kvöld. Vaxandi austanátt og þykknar upp í nótt, 8-15 og slydda eða rigning S-lands undir morgun. Austan 8-15 og slydda eða snjókoma norðantil á landinu upp úr hádegi á morgun, en hægari vindur og rigning með köflum fyrir sunnan. Hiti víða kringum frostmark, en hiti 1 til 6 stig við suður- og suðvesturströndina á morgun.

Skafrenningur, ofankoma og sviptivindar gengu yfir Siglufjörð í gær og …
Skafrenningur, ofankoma og sviptivindar gengu yfir Siglufjörð í gær og nótt, en í dag hefur lægt og var útsýni yfir bæinn fallegt þegar ljósmyndari tók þessa mynd yfir bæinn. Ljósmynd/Sveinn Þorsteinsson
Friðsælt á Siglufirði fyrr í dag.
Friðsælt á Siglufirði fyrr í dag. Ljósmynd/Sveinn Þorsteinsson
Silfurtorgið á Ísafirði var friðsælt þegar fréttaritari mbl.is tók þessa …
Silfurtorgið á Ísafirði var friðsælt þegar fréttaritari mbl.is tók þessa mynd fyrr í dag. Snjórinn hefur ekki haft áhrif á íbúa Ísafjarðar í dag. Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson
Hálka og vandræði í Kópavogi á Elliðavatnsvegi í morgun.
Hálka og vandræði í Kópavogi á Elliðavatnsvegi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
Gatnamót Álfhólsvegar og Álfaheiðar. Ökumenn fara sér hægt, enda afar …
Gatnamót Álfhólsvegar og Álfaheiðar. Ökumenn fara sér hægt, enda afar hált. mbl.is/Lára Halla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert