Besta landslið Norðurlandanna

Í dag varð það opinbert. Sem Íslendingur getur þú, lesandi góður, hallað þér að næsta Dana, Svía, Norðmanni eða Finna og sagt: „Við erum betri en þið í fótbolta.“ Á nýjum styrkleikalista FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandsins, er íslenska karlalandsliðið nefnilega efst Norðurlandaþjóða, eftir stórkostlegt gengi undanfarin misseri sem kórónað var með fræknum sigri á Hollandi fyrr í mánuðinum.

Ef viðmælandi þinn svarar „nej, men hvordan kan det være muligt?“ eða eitthvað í þá áttina, þá er svarið ekkert einfalt. Fyrir tveimur og hálfu ári var Ísland í 131. sæti á styrkleikalistanum, fyrir neðan Færeyjar. Nú er liðið í hópi 30 bestu landsliða heims samkvæmt listanum. Að baki svona svakalegri uppsveiflu liggja margar ástæður.

Augljósa svarið er það að við eigum betri leikmenn í dag. Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson virðast einnig hafa verið hárréttu mennirnir til að taka við þjálfun liðsins. En af hverju eigum við betri leikmenn í dag og hvað er svona gott við Lars og Heimi? Þarna er talið að ráði mestu hve öll aðstaða til knattspyrnuiðkunar hefur gjörbreyst til hins betra hér á landi og hve háu menntunarstigi þjálfarar yngri flokka hafa náð. Fánaberar A-landsliðsins í dag, menn eins og Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson, eru taldir afrakstur þess, strákar sem hafa vanist því að ná árangri með félagsliðum og yngri landsliðum.

Vanir því að ná árangri

„Þessir strákar í A-landsliðinu í dag, sem er nokkuð ungt landslið, hafa margir hverjir komist í lokakeppni EM með U21-landsliðinu og jafnvel líka U17-landsliðinu. Þeir hafa lengi verið góðir, fengið mikilvæga reynslu og sætta sig ekki við neitt minna en að komast einnig í lokakeppni með A-landsliðinu,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu. Sigurður Ragnar var fræðslustjóri KSÍ um árabil og þekkir vel til þess hvernig haldið hefur verið á spöðunum í knattspyrnuhreyfingunni hérlendis.

Ólíkt öðrum Norðurlöndum

„Við erum með annað skipulag á okkar yngriflokkaþjálfun en tíðkast hjá öðrum norrænum þjóðum. Þar er mjög algengt að foreldrar eða aðrir ómenntaðir sjálfboðaliðar sinni barna- og jafnvel unglingaþjálfun. Það er ekki fyrr en á táningsaldri sem knattspyrnufólk þar nýtur handleiðslu menntaðra þjálfara og oft er það einfaldlega svolítið seint,“ sagði Sigurður. „Besti aldurinn fyrir tækniþjálfun er 8-12 ára. Þar stöndum við mjög vel að vígi, sérstaklega stráka-megin, hvað varðar menntun þjálfara. Við erum með þjálfara sem kunna fræðin, eru í launaðri vinnu sem slíkir og margir hverjir auk þess menntaðir íþróttakennarar. Það er ofboðslega góð barnaþjálfun á Íslandi. Börnin byrja fyrr og æfa oftar en á öðrum Norðurlöndum. Það er líka jákvætt að þau prófa flest fleiri íþróttagreinar, sem veita góðan grunn,“ sagði Sigurður.

70% með UEFA-B-réttindi

„Það er rosalega hátt hlutfall þjálfara á Íslandi sem hafa tekið þjálfaranámskeiðin hjá KSÍ. Það eru tæplega 700 þjálfarar starfandi í knattspyrnuhreyfingunni á Íslandi og ég held að núna séu um 70% þeirra með UEFA-B-réttindi og um 25% með UEFA-A-réttindi. Þetta er mun hærra hlutfall en í öðrum löndum,“ bætti hann við. Bestu knattspyrnumenn þjóðarinnar hafa eftir gott uppeldi hér heima margir haldið snemma í atvinnumennsku.

„Við sjáum það á landsliðshópnum í dag að margir þessara leikmanna hafa farið út án þess að spila leik, eða alla vega mjög lítið, í Pepsídeildinni. Það gildir um okkar bestu menn í dag. Þeir fá sína þjálfun erlendis frá 16-17 ára aldri. Ég held að þetta henti mjög vel, en það er engin ein formúla sem hentar til að búa til góðan landsliðsmann. Viðar Örn Kjartansson og Alfreð Finnbogason hafa til dæmis báðir farið seint út en staðið sig frábærlega, en Gylfi Þór Sigurðsson fór mjög ungur út og hefur skarað fram úr,“ sagði Sigurður. Fleira spilar inn í en góð þjálfun. Öll aðstaða er gjörbreytt.

Gervigrasið enn mikilvægara en hallirnar?

„Frá árinu 2002 hófst þessi knattspyrnuhallavæðing og jafnframt gervigrasvæðing sem er ekki síður mikilvæg. Við eigum núna sjö eða átta hallir í fullri stærð og nokkrar minni, en það hafa líka verið byggðir margir gervigrasvellir sem gera okkur kleift að æfa knattspyrnu allt árið. Áður fyrr var fótbolti ekki heilsársíþrótt. Ég var sjálfur hálft árið í ræktinni og úti að skokka og svo kannski í innanhússfótbolta einu sinni eða tvisvar í viku. Núna er þetta allt annað og bæði tækni og leikskilningi leikmanna hefur fleygt fram,“ sagði Sigurður og það má til sanns vegar færa. Styrkur Íslands felst ekki í grjóthörðum varnar- og miðjumönnum heldur afburðalunknum leikmönnum.

Aldrei fleiri atvinnumenn

„Við eigum mun fleiri góða leikmenn, eins og sést á því að landsliðunum okkar gengur betur, og einnig félagsliðunum í Evrópukeppnum. Við eigum fleiri atvinnumenn erlendis en nokkru sinni fyrr, í kringum 90 talsins, og þetta eru allt staðreyndir þrátt fyrir að iðkendafjöldi hafi ekki aukist neitt gríðarlega. Við erum bara komin með betri aðstöðu og betri þjálfun og gerum þannig betur með þá iðkendur sem við höfum. Þetta er allt á uppleið og íslenskur fótbolti alltaf að vaxa,“ sagði Sigurður.

Auk bættrar aðstöðu og menntunar þjálfara, sem hefur skilað sér í betri leikmönnum, verður ekki framhjá því litið að innkoma Lars Lagerbäcks, hins reynda fyrrverandi landsliðsþjálfara Svíþjóðar, hefur breytt miklu. Þeir Heimir Hallgrímsson virðast ná fullkomlega saman og hafa mótað leikskipulag sem svínvirkar, auk þess að koma aga á leikmannahópinn, sem oft virtist vanta upp á. Leikmenn hafa sjálfir ítrekað bent á að fagmennskan í allri umgjörð kringum liðið hafi stórbatnað.

Lagerbäck deilir ábyrgðinni

„Leikmenn verða fyrst og fremst betri hjá félagsliðum sínum. Þegar þeir koma í landsliðsverkefni er mikilvægt að búið sé að leikgreina andstæðinginn vel, hugmyndafræðin sé í lagi, afreksumhverfi, þjálfararnir hæfir og allir með sín hlutverk á hreinu. Það hefur tekist einstaklega vel hjá A-landsliði karla,“ sagði Sigurður.

„Þjálfarateymi liðsins er mjög hæft á sínu sviði. Lars Lagerbäck hefur verið mikið í umræðunni og ég vil ekkert taka af honum en það er kannski einblínt fullmikið á hann. Heimir Hallgrímsson og Guðmundur Hreiðarsson [markvarðaþjálfari] eru líka í þessu teymi og ég veit að þeir eru mjög mikilvægir. Lars deilir ábyrgðinni vel og vill að allir komi að borðinu,“ sagði Sigurður.

Virðumst geta unnið alla

„Þjálfararnir og þeir sem að liðinu standa eiga allir sinn hluta í þessum árangri og síðast en ekki síst leikmennirnir sem hafa verið frábærir og fylla mann stolti í hverjum leik. Þeir eru rosalega metnaðarfullir, spila stóra rullu í sínum félagsliðum og standa sig vel. Svo eigum við leikmenn sem spila kannski ekki á hæsta stigi fótboltans með sínum félagsliðum en fúnkera mjög vel í landsliðinu okkar því allt skipulag í vörn og sókn er mjög gott og allir leikmenn agaðir. Það eru þannig gæði og hugarfar í hópnum núna að við virðumst geta unnið hvaða þjóð sem er á góðum degi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert