Félag læknanema lýsir yfir áhyggjum

Læknar að stöfum.
Læknar að stöfum. Rax / Ragnar Axelsson

Stjórn Félags læknanema hefur sent frá sér ályktun um þær afleiðingar sem verkfall myndi hafa á klíníska nemendur. Þar segir að stjórnin harmi það að Læknafélag Íslands og Skurðlæknafélag Íslands sjái sig knúin til þess að boða til verkfalls. Þá lýsir stjórnin yfir þungum áhyggjum á framgöngu samningaviðræðna. 

Er þetta í fyrsta sinn sem læknar á Íslandi ákveða að nýta sér takmarkaðan verkfallsrétt sem komið var á  fyrir tæpum 30 árum. Náist samningar ekki í tæka tíð munu læknar sem starfa samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Læknafélags Íslands hefja verkfall næstkomandi mánudag.

„Ljóst er að verkfall lækna hafi í för með sér áhrif á starfsemi Landspítalans, sjúklinga og aðstandendur. Einnig er ljóst að verkfall hafi þar að auki í för með sér skerðingu á gæðum klínískrar kennslu og komi, á þeim tímum sem verkfall er boðað, í veg fyrir klínískt nám sem nauðsynlegt er til að útskrifa lækna. Samningar eru því bráður vandi sem þarf að sinna hið snarasta,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að eigi Landspítalinn að sinna þeirri þjónustu sem stofnuninni er ætluð blasi við að bæta verði kjör starfsmanna spítalans. „Landspítalinn verður ekki rekinn án lækna. Ekki verður hann heldur rekinn án þeirra framtíðarlækna sem útskrifast á næstu árum og fylgjast grannt með framvindu samningaviðræðna LÍ og samninganefndar ríkisins.“

Stjórn Félags læknanema lýsir því yfir fullum stuðningi við kröfur Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands. Félagið hvetur jafnframt alla lækna til að virða verkfall meðan á því stendur. Þá skorar félagið á  samninganefnd ríkisins og ríkið sjálft að leysa viðvarandi kjaravanda lækna sem starfa á Landspítalanum með því að mæta kröfum Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands strax.

Sjá má ályktunina í heild hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert