Meti líf barnanna í peningum

Jóhannes Kr. Kristjánsson.
Jóhannes Kr. Kristjánsson. Heiðar Kristjánsson

Jóhannes Kr. Kristjánsson, foreldri stúlku með geðsjúkdóm sem lést af völdum fíkniefnaneyslu, skaut föstum skotum að heilbrigðisyfirvöldum þegar hann ræddi reynslu sína af heilbrigðiskerfinu á málþingi Geðhjálpar og Olnbogabarna í dag. 

Sagði hann áberandi hversu ólíkar skoðanir starfsfólksins væru sem unnu með börnum sem glíma við geðrænan vanda, og þeirra sem stjórnar kerfinu. 

Telur hann það kerfi sem heilbrigðisyfirvöld vinna með til þess að meðhöndla ungt fólk með geðræna sjúkdóma ekki virka, hverju sem stjórnendur þess halda fram. Sagði hann kerfið kannski virka fyrir þau börn sem ekki eru byrjuð í neyslu fíkniefna vegna vanlíðunar, eða sem eftirmeðferðarúrræði. Líkir hann meðferðarkerfinu við það ef krabbameinssjúklingur fengi aðeins lyfja- en ekki geislameðferð. 

Kerfið mismunar börnum

Hafði Jóhannes einnig orð á mismunun milli barna í kerfinu. Jóhannes, sem starfaði sem ritstjóri fréttarskýringarþáttarins Kompás á þeim tíma er dóttir hans fór að neyta fíkniefna, kom dóttur sinni þrisvar sinnum í meðferð á Stuðlum. „Ef ég hefði verið sjómaður hefði þetta ekki gengið svo vel,“ segir Jóhannes. 

Jóhannes hvatti yfirvöld og alla þá sem koma að málum barna sem glíma við geðrænan vanda að horfa í eigin barm og meta líf barnanna í peningum. „Það er það eina sem þau [yfirvöld] horfa á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert