Segir umræðuna á villigötum

Snorri segir umræðuna um skotvopnin sem lögreglan fékk að gjöf …
Snorri segir umræðuna um skotvopnin sem lögreglan fékk að gjöf vera á villigötum. Ljósmynd/Rósa Braga

„Afstaða Landsambands lögreglumanna er sú að við höfum ekki verið að kalla eftir því að lögreglan beri skotvopn við dagleg störf sín,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landsambands lögreglumanna en eins og frægt er orðið þáði lögreglan 150 hríðskotabyssur að gjöf frá norskum yfirvöldum.  

„Umræðan sem skapast hefur að undanförnu er engu að síður á á villigötum. Það er ekkert að breytast hjá lögreglunni. Lögreglan hefur haft þessi tæki um áraraðir, ef ekki áratugi, það er bara verið að fá þarna að gjöf tæki til endurnýjunar. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar, svo Landsamband lögreglumanna viti, um breytingar á neinu er varðar umgengni á vopnunum. Engar ákvarðanir hafa verið teknar á pólitískum vettvangi um að vopnvæða lögreglu, enda hefur Landsamband lögreglumanna staðið gegn slíku og ekki kallað eftir því,“ segir hann.

„Það hefur þó verið gerð könnun meðal Landsambandsins þar sem kom í ljós að lögreglumenn kölluðu eftir meiri þjálfun í meðferð þeirra skotvopna sem lögreglan hefur yfir að ráða. Þá er bæði verið að tala um einfaldar skammbyssur og þessar MP5 byssur,“ segir Snorri.

Endurnýjung vopnabúrsins

„Það er enginn grundvallarbreyting að verða með tilkomu þessara tilteknu vopna, ekki nokkur sem okkur er kunnugt um,“ endurtekur Snorri.

„Það er síðan lögreglustjóra viðkomandi svæða að ákveða hvernig aðgengi lögreglumanna er að skotvopnunum, það er að segja hvort að þau eru í skotvopnaskápum inni á lögreglustöðum eða í læstum skápum í lögreglubílum,“ segir hann og bætir við að byssurnar hafi verið gjöf frá Norðmönnum

„Það er staðreynd að þessar 150 byssur voru gjöf, Ísland borgaði eingöngu sendingarkostnað sem ég hef ekki hugmynd um hver var. Þar með er klárlega verið að spara ríkissjóði tugi milljóna í kostnað við endurnýjun á þeim vopnum sem þegar eru til,“ segir hann. 

Lögreglumenn þjálfaðir í beitingu skotvopna

„Við verðum líka að horfa til þess að hér er hvorki her né þjóðvarðarlið sem flest önnur ríki hafa yfir að ráða. Lögreglan er því eina viðbragð þjóðríkisins við ógn af þessu tagi, þar af leiðir að lögregla á Íslandi verður að ráða yfir búnaði til að bregðast við ógn,“ segir Snorri og rifjar því næst upp skipulagðar skotæfingar síðustu áratuga. 

„Þegar ég byrjaði í lögreglunni árið 1984, þá voru skipulagðar skotæfingar stundaðar á næturvöktum í miðri viku þegar það var lítið að gera. Þá hafði lögregla aðgengi að skotæfingasvæði sem var staðsett á Seltjarnarnesi þar sem golfvöllurinn er núna. Þær æfingar héldust lengi og hafa verið stundaðar að einhverju leyti í Kópavogi. Vegna fjárskorts hefur þetta hinsvegar í seinni tíð nánast lagst af þar sem þetta hefur kostað embættin of mikið. Á síðasta ári lagði ríkistjórnin til 500 milljónir króna í aukin tækjabúnað og þjálfun. Það er eitthvað sem Landsamband lögreglumanna hefur kallað eftir í áraraðir, það er að segja aukin þjálfun lögreglumanna og betri varnarbúnaður - hvort sem það eru hnífavesti, skotvesti, einkennisfatnaður, bílar eða eitthvað annað. Hluti af þessum 500 milljónum fer núna í þessa þjálfun,“ segir hann og viðurkennir að þar af leiðandi sé vissulega verið að þjálfa fleiri lögreglumenn í beitingu skotvopna en áður. 

„Það er samt eitthvað sem hefði átt að vera viðvarandi öllum stundum en hefur ekki verið vegna mjög naumt skammtaðra fjárveitinga til þessara mála hjá ríkisvaldinu,“ segir hann. 

Vonar að fólk beri enn traust til lögreglunnar

„Ég ætla að vona í lengstu lög að þetta verði ekki til þess að traust almennings til lögreglu dvíni því tilgangurinn með þessum skipulögðu æfingum er alls ekki sá. Tilgangurinn er einfaldlega að gera lögreglumenn í stakk búna til að nota þann tækjabúnað sem lögreglan hefur yfir að ráða,“ segir Snorri og bætir við að vonandi muni hún aldrei koma til með að beita vopnunum.

„Það er ekki á forræði Landsambandsins að svara fyrir það hví farið var leynt með þessa gjöf. Ég er í grunninn sammála því að þetta er ekkert leyndamál og það er ekkert nýtt að gerast. Lögreglan er ekki að fá nein ný tæki, hún er að fá tæki til endurnýjunar. Hríðskotabyssur sem lögreglan bjó yfir fyrir gjöfina, sem eru komnar á tíma sinn, verða að öllum líkindum eytt þar sem þær nýju eru komnar í staðinn,“ segir Snorri að lokum. 

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
Þýska fyrirtækið Heckler & Koch framleiðir MP5-hríðskotabyssurnar, sem lögreglumenn um …
Þýska fyrirtækið Heckler & Koch framleiðir MP5-hríðskotabyssurnar, sem lögreglumenn um allan heim nota.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert