Bærinn brást íbúum sínum

Hálka og vandræði í Kópavogi á Elliðavatnsvegi
Hálka og vandræði í Kópavogi á Elliðavatnsvegi mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarráð Kópavogs telur nauðsynlegt að leggja áherslu á að verkferlar verði yfirfarnir og það tryggt að ástand sem það sem skapaðist í bænum á þriðjudagsmorgun komi ekki upp aftur. Félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi telur að bærinn geti borið ábyrgð á tjóni sem varð.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í gær og segir í fundargerð að ráðið harmi að ekki skuli hafa verið rétt brugðist við því ástandi sem skapaðist þegar söltun og snjómokstur hófst ekki á réttum tíma, með tilheyrandi vandræðum Kópavogsbúa. 

Birkir Jón Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokks í bæjarráði, lagði þá fram eftirfarandi bókun:„Það er ljóst að Kópavogsbær brást íbúum sínum í snjó- og hálkuvörnum sl. þriðjudag. Þrátt fyrir slæma veðurspá og ítrekaðar aðvaranir Strætó var ekki gripið til viðeigandi ráðstafana. Miklar tafir og tjón hlaust af þessum mistökum. Endurskoða þarf verkferla og vinnubrögð, bæjarráð þarf að hafa forgöngu um að slíkt verði gert.“

Þá hefur Týr, félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, sent frá sér ályktun en í henni segir að Kópavogsbær hafi brugðist bæjarbúum.

„Félagið telur þennan atburð virkilega alvarlegan enda olli hann fjölda umferðarslysa- og óhappa sem annars hefðu að öllum líkindum ekki orðið. Enda er ekki leyfilegt fyrir almenning að setja bíla sína á nagladekk fyrr en 1. nóvember. Þá fer félagið fram á það að bæjarstjórn gefi félaginu ásamt bæjarbúum skýrari svör um hvað nákvæmlega fór úrskeiðis þennan morgun. En einnig að útlistað sé hvernig eigi að bæta úr verkferlum bæjarins, þannig að útilokað sé að slíkt eigi sér stað aftur.

Eins og nefnt er að ofan varð fjöldinn allur af umferðarslysum- og óhöppum þegar fólk var á leið til vinnu og í skóla þennan morgun sem rekja má til mistaka starfsmanna bæjarins sem bæjaryfirvöld bera ábyrgð á. Vill Týr hvetja þá aðila sem urðu fyrir tjóni vegna þessara mistaka að kanna rétt sinn til skaðabóta úr hendi bæjarins. En telja verður að bærinn geti hæglega borið ábyrgð á því tjóni.“

Fréttir mbl.is af ófærðinni í Kópavogi:

Kópavogsbær ekki bótaskyldur

Kópavogsbær endurskoðar verklagsreglur

Mannleg mistök í Kópavogi

Aldrei upplifað annað eins

Umferðin í Kópavogi á þriðjudagsmorgun.
Umferðin í Kópavogi á þriðjudagsmorgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert