Verkaskipting kynjanna jafnari

Hlutfall gæðastunda sem feður verja með börnum er hærra en …
Hlutfall gæðastunda sem feður verja með börnum er hærra en hjá mæðrum en mæður verja aftur á móti meiri tíma í uppeldi barnana. mbl.is/Styrmir Kári

Verkaskipting kynjanna á Íslandi er orðin jafnari síðan fyrir efnahagshrunið þótt verkum sé langt frá því jafnt skipt. Pör sem eru bæði í fullri vinnu verja styttri tíma í heimilisstörf og barnauppeldi en pör þar sem annar eða báðir vinna hlutastarf eða eru ekki í vinnu.

Þetta kom fram í máli Þóru Kristínar Þórsdóttur, doktorsnema við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, á málþinginu Kyn og fræði sem haldið var af Jafnréttisstofu í morgun.

Þóra kynnti rannsókn sem hún og Kolbeinn Stefánsson, sérfræðingur við Hagstofu Íslands, unnu um verkaskiptingu kynjanna á heimilum landsins.

Meiri tími í heimilisverk eftir hrun

Markmiðið var meðal annars að kanna hvort efnahagshrunið hefði haft áhrif á verkaskiptingu kynjanna á heimilinu.

Þóra sagði að niðurstöðurnar bentu til þess að Íslendingar væru frekar dæmigerðir Evrópubúar hvað varðar tíma sem varið er í heimilisstörf en konur hér á landi verðu þó meiri tíma í heimilisstörf en karlar.

Þegar litið er til fólks sem er í hjónabandi eða sambúð juku karlar þátttöku í heimilisverkum eftir efnahagshrunið. Þóra sagðist telja að þetta væri hugsanlega vegna þess að vinnutími karlanna hefði styst.

Tíminn sem konur vörðu í heimilisverkin stóð aftur á móti í stað. Þá kom einnig fram að fólk í sambúð eða í hjónabandi er líklegra til að deila verkum ef bæði eru í vinnu.

Fleiri gæðastundir með feðrunum

Í svörunum kom fram að þau virtust líta svo á að þvottur væri meira kvenmannsverk, karlinn sæi frekar um viðhald á meðan konan verslaði oftar og þrifi, auk þess að elda.

Þegar litið er til svaranna virðist sem enn sé ákveðin verkaskipting milli kynjanna þótt hún hafi orðið jafnari síðustu ár.

Hlutfall gæðastunda sem feður hér á landi verja með börnum sínum er hærra en hjá mæðrum en mæður verja aftur á móti meiri tíma í uppeldi barnanna. Barnauppeldinu er jafnar skipt en heimilisstörf en heimanám virðist þó vera nokkuð sem konurnar sinna frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert