Gylfi endurkjörinn sem forseti

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Kristinn Ingvarsson

Gylfi Arnbjörnsson var endurkjörinn sem forseti Alþýðusambands Íslands með miklum yfirburðum á 41. þingi sambandsins nú fyrir stundu. Hann hlaut 74,5% atkvæða á móti 25,5% Ragnars Þórs Ingólfssonar, stjórnarmanns í VR, sem bauð sig fram gegn Gylfa.

Alls greiddu 275 atkvæði í forsetakjörinu. Af þeim hlaut Gylfi 201 atkvæði, 74,5%, en Ragnar Þór 69 eða 25,5% Fimm atkvæði voru auð. Ragnar bauð sig einnig fram gegn Gylfa á síðasta þingi ASÍ árið 2012 og hlaut Gylfi þá 69,8% atkvæða en Ragnar Þór 30,2%.

Þegar niðurstaðan lá fyrir steig Gylfi í pontu. Lýsti hann því hvernig hann hefði þurft að hugsa sig um áður en hann ákvað að gefa áfram kost á sér sem forseti. Síðasti vetur hefði verið verkalýðshreyfingunni erfiður og mál verið persónulega rætnari en áður.

„Ég þurfi ekki bara sjálfs mín vegna heldur fjölskyldu minnar að staldra við og spyrja: Getur maður staðið í þessu?" sagði hann.

Niðurstaðan hefði þó verið að það gæfi honum enn lífsfyllingu að takast á við verkefnin sem fyrir lægju og hann teldi sig enn hafa margt fram að færa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert