Hafði ekki milligöngu um byssur

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mbl.is/Kristinn

„Utanríkisráðherra hefur enga aðkomu að þessu máli, við höfum ekki haft milligöngu um neinar byssur,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra um vélbyssuvæðingu íslensku lögreglunnar en hann fór fyrr af fundi ríkisstjórnarinnar sem enn stendur. 

Gunnar Bragi segir málið ekki heyra undir ráðuneyti sitt og að það væri ákvörðun Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóra að afla sér vopna. Hann teldi slíkt ekki óeðlilegt á meðan það væri innan ramma þeirra laga og reglna sem lögreglan starfaði eftir. „Mér finnst mjög gott að lögreglan skuli endurnýja sín vopn. Það er mikilvægt að lögreglan hafi aðgang að slíkum vopnum í því umhverfi sem hún starfar í dag. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að lögreglan sé að endurnýja þann búnað sem hún hefur.“

Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra í gær kom fram að norsk sendinefnd á vegum þarlendra varnarmálayfirvalda hefði komið til landsins í júní 2013 í boði utanríkisráðuneytisins og heimsótt af því tilefni meðal annars æfingaaðstöðu lögreglu á Keflavíkurflugvelli ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar.

Gunnar Bragi segir einhvern misskilning vera á ferð telji Ríkislögreglustjóri að utanríkisráðuneytið hafi komið að málinu. Ríkisstjórnin hafi hvergi komið að því. Engin stefnubreyting væri í málinu enda hefði lögreglan alltaf haft yfir vopnum að ráða. „Mér finnst að menn hefðu átt að segja bara strax hvernig hlutirnir væru því það er ekkert óeðlilegt við þetta,“ sagði hann ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert