Hafna tvöföldu heilbrigðiskerfi

Í ályktun þings ASÍ segir einnig að hefjast þurfi handa …
Í ályktun þings ASÍ segir einnig að hefjast þurfi handa við byggingu nýs Landspítala nú þegar.

Allir landsmenn eiga að hafa jafnan, óheftan aðgang að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og búsetu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ályktun 41. þings ASÍ. Þingfulltrúar hafna jafnframt alfarið tvöföldu heilbrigðiskerfi þar sem efnameira fólk geti keypt sér forgang og betri þjónustu.

Í ályktuninni kemur fram að nú þegar sé sú staða uppi að meðan efnaminna fólk þurfi að neita sér um heilbrigðisþjónustu og lyf vegna kostnaðar geti efnameira fólk keypt sér forgang. Með þessu sé rofinn áratuga samfélagssáttmáli um aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Kostnaður sjúklinga ætti aldrei að koma í veg fyrir að fólk geti sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki.

Þingfulltrúar ályktuðu að lækka þyrfti tafarlaust beina greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu sem væri komin út fyrir öll þolmörk og yki fjárhagslega og heilsufarslega misskiptingu. Þannig yrði greiðsluþátttökukerfið endurskoðað með það að markmiði að setja þak á heilbrigðiskostnað fjölskyldna á hverju tólf mánaða tímabili.

Ályktun 41. þings ASÍ um heilbrigðismál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert