„Nú er kominn tími á efndir“

Frá 41. þingi ASÍ.
Frá 41. þingi ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingfulltrúar á 41. þingi Alþýðusambands Íslands hafa krafist þess að stjórnvöld setji þegar í stað verulegt fjármagn í uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði sem geri lágtekjufólki kleift að búa við húsnæðisöryggi á viðráðanlegum kjörum. Þá segja þeir stjórnvöld bera ábyrgð á „því ófremdarástandi sem nú ríkir í húsnæðismálum.“

Þetta kom fram í ályktun 41. þings ASÍ um húsnæðismál. Fulltrúarnir krefjast úrbóta nú þegar, „því margir félaga okkar eru í húsnæðiserfiðleikum og geta ekki beðið lengur. Ekki fleiri nefndarfundi, nú er kominn tími á efndir,“ segir í ályktuninni.

Þar segir að nú þegar þurfi að koma á húsnæðisbótakerfi í stað vaxta- og húsleigubóta sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og kaupendur húsnæðis. 41. þing ASÍ telur að um þetta hafi verið rætt nógu lengi og krefst athafna nú þegar. Þingið krefst þess að ríki og sveitarfélög skapi nú þegar hagstæðari umgjörð fyrir uppbyggingu almennra húsaleigufélaga sem boðið geta öruggt framtíðarhúsnæði.

Auðvelda eigi ungu fólki að eignast húsnæði

Koma þurfi á nýju húsnæðislánakerfi sem tryggir heimilum hagstæðari fjármögnun
íbúðarhúsnæðis og dreifir áhættu við efnahagsáföll með réttlátari hætti milli lántakenda og
lánveitenda. „Leita þarf leiða til að auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Þetta má m.a. gera
með því að hvetja til sérstaks húsnæðissparnaðar með skattaívilnun.

Þá segir að aðgangur að öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum séu mannréttindi – ekki forréttindi. „Stórir hópar í okkar samfélagi eru utanveltu á húsnæðismarkaði, hafa ekki bolmagn til kaupa á húsnæði, ráða ekki við að greiða markaðsleigu og fá ekki aðgang að félagslegu húsnæði. Þingfulltrúar krefjast því tafarlausra aðgerða í húsnæðismálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert