Á morðvettvang með handjárn og trékylfu

Stefán Geir Gunnarsson
Stefán Geir Gunnarsson

Stefán Geir Gunnarsson, fyrrverandi lögreglumaður í Vestmannaeyjum, segir að lögreglumenn í fámennum umdæmum þurfi stundum að takast á við erfiðar aðstæður. Hann hafi einu sinni farið á morðvettvang með aðeins handjárn og trékylfu sér til varnar. Hann segist við þær aðstæður hafa viljað hafa byssu í lögreglubílnum.

Stefán segist eitt sinn hafa fengið útkall frá varðstjóra um að fara í verkefni þar sem tilkynnt hafði verið um morðtilraun í heimahúsi í Vestmannaeyjum. „Miðað við búnað minn í bílnum átti ég ekki margra kosta völ. Búnaður minn til að mæta á vettvang harmleiksins fólst í því að ég hafði handjárn og trékylfu, en engin skotfæri mér og öðrum til halds og trausts, en skotheld varnaðarvesti, voru ekki þekkt í tungumálinu. Til að ráða niðurlögum meints árásarmanns og hlúa að meintu fórnarlambi þurfti ég að taka ákvörðun um að forgangsraða framhaldinu. Að vera sá sem yfirbugaði meintan árásarmann og gera hann óvirkan með járnum, vernda rannsóknarvettvang, veita neyðaraðstoð við fórnarlamb glæpsins og skrá vitni. Auðvitað var ráðist strax í það, eftir að mér barst hjálp að flytja fórnarlambið á neyðarmóttöku - en hann lést í höndum okkar í lyftu í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja.

Ég hefði, vegna ofangreinds útkallsdæmis hjá mér, gjarnan viljað hafa byssu sem kost í lögreglubílnum hjá mér vegna algjörlega óvissra öryggisaðstæðna á vettvangi, mér og öllum viðkomandi á staðnum til öryggis. Að sjálfsögðu hefði verið leitað samþykkis varðstjóra áður en til vettvangs var komið.“

Vísað er í frásögn Stefáns í Eyjafréttum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert