Átök og spilling efst á baugi í Úkraínu

Þingkosningar í landinu fara fram á morgun.
Þingkosningar í landinu fara fram á morgun. AFP

„Það er tvennt sem er efst á baugi í þessum kosningum; annars vegar afstaða til átakanna í austurhluta landsins og þar með afstaða til Rússa og hins vegar er horft til spillingar,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sem er við kosningaeftirlit í Úkraínu. Mikil landlæg spilling hefur verið í landinu, sem teygt hefur þræði sína inn í stjórnmálin og að sögn Ögmundar er horft til þess hvað flokkar ætli að gera til að uppræta þá spillingu.

Ögmundur er kominn til Kænugarðs ásamt Karli Garðarssyni þingmanni Framsóknarflokksins þar sem þeir munu sinna kosningaeftirliti í þingkosningunum á morgun á vegum Evrópuráðsins. Petro Porosjenkó forseti rauf þing í sumar og boðaði til þingkosninga, en búist er við því að flokkur forsetans verði sigursæll. 

„Hingað til höfum við ekki séð neitt annað en að allir séu að reyna að vanda sig við að gera þetta eins vel og nokkur kostur er. En við munum sjá það betur á morgun þegar við förum á kjörstaðina og fáum að kynnast af eigin raun hvernig framkvæmdin er,“ segir Ögmundur. „En þetta er náttúrulega þjóðfélag sem er í miklu uppnámi og menn horfa á þessar kosningar með hliðsjón af því.“

Ögmundur segir þó að í aðdraganda kosninganna hafi verið nokkuð mörg dæmi þess að frambjóðendur hafi orðið fyrir aðkasti, „og þá hefur maður áhyggjur af því að það hafi áhrif á lýðræðislegt ferli,“ segir hann. „Þá er vitað að í sumum hlutum landsins er ekki hægt að búast við eðlilegum kosningum.

Mun hafa sitt að setja að austurhlutinn kjósi ekki

Á stórum svæðum í austurhluta landsins eru kjörstaðir ekki opnir vegna aðgerða aðskilnaðarsinna. Í héruðunum Donetsk og Luhansk eru langflestir kjörstaðir lokaðir, og í Donetsk borg er enginn kjörstaður opinn. Um fimm milljón manns eru á kjörskrá í þessum tveimur héruðum, eða um 14 prósent af heildarfjölda þjóðarinnar. „Það mun hafa sitt að segja að sá hluti þjóðarinnar komi ekki til með að kjósa,“ segir Ögmundur.

Það ásamt öðru leiði til þess að líkur séu á að Kommúnistaflokkur landsins þurrkist út af þingi. „Það sem gerðist í aðdraganda kosninganna var að Kommúnistaflokknum var bolað útaf þingi. Í ljósi þess að hluti þess þingflokks gekk úr flokknum þá nýtti forsetinn sér ákvæði í stjórnarskrá til að bola þeim útaf þingi, sem er nánast ígildi þess að banna flokkinn. Hann býður engu að síður fram í kosningunum en hann átti sitt meginfylgi í austurhluta landsins og á Krímskaga,“ segir Ögmundur.

Um 35 milljón manns eru á kjörskrá, og búist er við mikilli þátttöku. Um tuttugu manns eru í framboði, en forsetinn hefur verið með afgerandi forystu í skoðanakönnunum. Talið er að flokkur Porosjenkós muni reyna að mynda stjórn með tveimur eða þremur öðrum flokkum.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. Árni Sæberg
Petro Porosjenkó forseti Úkraínu.
Petro Porosjenkó forseti Úkraínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert