Lögreglan var grýtt með grjóti og málningu

Lögreglumenn voru grýtir meðan þeir stóðu vakt við Alþingishúsið.
Lögreglumenn voru grýtir meðan þeir stóðu vakt við Alþingishúsið. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Þreytan og máttleysið var farið að segja til sín enda höfðum við verið svo til án matar og drykkjar allan daginn.“ Þannig lýsir lögreglumaður sem stóð vakt við Alþingishúsið 20. janúar árið 2009, en þá áttu sér stað fjölmennustu mótmælin í svokallaðri Búsáhaldabyltingu.

Í skýrslu lögreglumannsins kemur fram að talsverð óánægja var meðal lögreglumanna með hversu fljótt þeim sem handteknir höfðu verið vegna mótmæla var sleppt úr haldi.

„Ekki batnaði ástandið í hópum þegar lögreglumenn fóru að sjá einstaklinga sem handteknir voru í mótmælunum fyrr um daginn og allt að klukkustund áður. Sumir lögreglumenn misstu sig alveg, fáránleikinn var algjör, áttu lögreglumenn að þola það að það fólk sem handtekið hafði verið kæmi úthvílt til að berja á okkur aftur, þurftu menn virkilega að flýta sér svona mikið við að losa fólk úr fangageymslunum áður en mótmælunum lauk en það var óljóst svo sem hve lengi þau myndu standa. Fáránleikinn var orðinn algjör að mörgum fannst, ekki var laust við að maður tæki undir með félögum sínum en skipunum þurfti maður að hlýða og ekkert annað var í stöðunni heldur en að standa sig,“ sagði lögrelumaðurinn.

Lögreglumennirnir voru flestir búnir að vera á vakt í marga klukkutíma dögum saman og voru margir orðnir mjög þreyttir. „Lögreglan var grýtt með grjóti, málningu, heimatilbúnum sprengjum, matvælum eða öllu því sem hægt var að kasta með einum eða öðrum hætti. Rúður voru brotnar í þinghúsinu og eldar voru kveiktir á Austurvelli.“

Í skýrslu lögreglumannsins kemur fram að lögreglumenn fengu tilmæli frá yfirmönnum lögreglunnar að spara piparúðann sem notaður var á mótmælendur. „En það runnu fljótt á okkur tvær grímur þegar við vorum beðnir um að spara piparúðann og nota hann ekki nema við fengjum skipun um að nota hann, eina undantekningin var að nota mætti hann í neyðarvörn.“

Lögreglumennirnir voru komir í hús lögreglustöðvarinnar um kl. 4 um nóttina, en þá var mótmælum lokið. „Ég fékk þær upplýsingar að taka þyrfti daginn snemma þ.e. um klukkan 08:00. Ég sjálfur var orðinn mjög þreyttur, öskur, sprengjuregn og trommusláttur hljómuðu í höfði mínu með taktföstum hætti eftir að ég var búinn að tryggja að allir væru farnir heim sem voru í aðgerðinni lengst af, og þá tók ég þá ákvörðun að ná mér í teppi og leggjast á júdódýnu í líkamsræktaraðstöðu lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu. Ég vissi að ef ég færi heim þá fengi ég klukkutima minni hvíld en ef ég færi þarna niður.

Sveittur, blautur og svitabrunninn lagðist maður niður og sofnaði. Tæpum fjórum tímum síðar vaknaði maður með slátt í höfðinu og manni fannst í ljósrofinu að maður væri enn á Austurvelli en fljótt áttaði maður sig á því að mjög langur dagur væri fram undan.“

Daginn eftir mótmælin 20. janúar 2009 hélt Samfylkingin fund þar sem kom fram vilji til að slíta stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.

Eldar voru kveiktir við Alþingishúsið.
Eldar voru kveiktir við Alþingishúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert