Krefst skýringa á birtingu myndbands

Úr myndskeiðinu.
Úr myndskeiðinu.

Persónuvernd hefur sent erindi þar sem farið er fram á skýringar á því hvers vegna myndbandsupptaka úr eftirlitsmyndavél úr bílakjallara Höfðatorg var birt opinberlega á YouTube. Upptakan rataði síðar í fjölmiðla. Hefur stofnunin farið fram á að svör berist eigi síðar en 5. nóvember næstkomandi.

Þetta kemur fram á vef Persónuverndar.

Persónuvernd óskar skýringa á því hvers vegna félagið, sem rekur fasteignina, hafi í fórum sínum rúmlega þriggja ára gamalt myndband úr eftirlitsmyndavélakerfi félagsins. Jafnframt er farið fram á skýringar hvers vegna myndbandinu hafi ekki verið eytt eftir að aðkomu lögreglu að málinu lauk.

Bent er á, að persónuupplýsingar séu sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint megi rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.

„Á umræddu myndbandi má sjá tvo einstaklinga ásamt bifreið. Þrátt fyrir að bílnúmer bifreiðarinnar sé illgreinanlegt eru engu að síður líkur á því að þeir sem þekkja til atviksins, eða einstaklingana sem um ræðir, geti borið kennsl á þá í umræddu myndbandi,“ segir Persónuvernd. 

Bent er á, að miðlun efnis með viðkvæmum persónuupplýsingum sem verði til við myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél sé eingöngu heimil til lögreglu. Annars konar miðlun, t.d. birting slíkra mynda á netinu sé því óheimil samkvæmt lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert