Skera niður um 500 milljónir

Íbúum verður kynnt fjárhagsstaða Reykjanesbæjar á fundi nk. miðvikudag.
Íbúum verður kynnt fjárhagsstaða Reykjanesbæjar á fundi nk. miðvikudag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að ná fram 500 milljóna króna hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og jafnframt að auka tekjur bæjarins um 400 milljón krónur. Aðgerðirnar eru liður í aðgerðum til að taka á fjárhagsvanda bæjarins.

Miklar skuldir eru að sliga fjárhag Reykjanesbæjar. Skýrsla KPMG um fjárhagsstöðu og framtíðarhorfur bæjarsjóðs og samstæðu Reykjanesbæjar var lögð fram í bæjarráði fyrir helgi.

Ákveðið var samhljóða í tíð fyrrverandi bæjarstjórnar að vinna umrædda skýrslu og núverandi bæjarstjórn hefur unnið áfram í samræmi við það. Full samstaða er um niðurstöður hennar innan bæjarráðs.

Í skýrslunni eru settar fram tillögur að markmiðum um aðgerðir í rekstri bæjarsjóðs, verkefnum sem snúa að B-hluta fyrirtækjum, áherslum í fjárfestingum og aðgerðum vegna efnahags.

Bæjarráð samþykki á fundi sínum að fara í sérstaka aðgerðaráætlun í samræmi við tillögur KPMG.  Áætlunin beri nafnið „Sóknin“. Skýrslan og áætlunin verða kynnt á opnum kynningarfundi fyrir íbúa Reykjanesbæjar, fjölmiðla og aðra sem áhuga hafa á efni skýrslunnar í Stapa næstkomandi miðvikudag. Skýrsluhöfundar ásamt bæjarstjóra verða þar til svara um efni hennar.

„Bæjarráð samþykkir yfirmarkmið sem snúa að rekstri og aukinni framlegð A-hluta bæjarsjóðs. Í því felst að ná fram a.m.k. 900 milljón króna aukinni framlegð í rekstri bæjarsjóðs á árinu 2015 og næstu ár þar á eftir. Til að byrja með verði markmiðinu náð með 500 milljón króna hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og 400 milljón króna auknum tekjum. Nánari útfærsla verður lögð fram á næstu vikum, í síðasta lagi í fjárhagsáætlun ársins 2015 í lok nóvember n.k,“ segir í samþykkt bæjarráðs.

Endurskoða yfirvinnugreiðslur og bifreiðastyrki

Bæjarráð samþykkti jafnframt að fram fari endurskoðun á skipulagi og skipuriti Reykjanesbæjar með það að markmiði að auka skilvirkni og hagræða í rekstri. Ennfremur samþykkti bæjarráð að unnin verði sérstök greining á launagreiðslum innan sveitarfélagsins, þ.m.t. greiðslum vegna yfirvinnu, bifreiðastyrkjum og öðrum greiðslum, sem eru utan kjarasamninga. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í lok nóvember.

Þá hefur bæjarráð samþykkt bann við nýráðningum starfsfólks innan bæjarskrifstofunnar og að reynt verði að manna lausar stöður með núverandi starfsfólki. Jafnframt verður ekki endurráðið í stöður undirstofnana nema með sérstöku samþykki bæjarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert