Tónlistarmaður næmastur í hrútaþukli

Hugrún í KronKron þuklar einn af hrútunum fjórum einbeitt á …
Hugrún í KronKron þuklar einn af hrútunum fjórum einbeitt á svip. Keppt var í hrútaþukli í portinu fyrir aftan KEX hostel í dag. Stefanía/mbl.is

Sveitin kom ekki bara til borgarinnar í dag, heldur rakleiðis inn í 101 Reykjavík þegar keppt var í hrútaþukli í portinu fyrir aftan KEX hostel í dag. Leikmenn spreyttu sig á að þukla fjóra hrúta og skera úr um hver þeirra væri gjörvilegastur. Tónlistarmaðurinn Unnar Gísli Sigurmundsson, sem upplýsti að hann væri titlaður smali í símaskrá og notar listamannsnafnið Júníus Meyvant, reyndist hlutskarpastur.

Keppendur voru úr Vitahverfinu. Auk Júníusar tóku þátt Guðmundur Jörundsson fatahönnuður, Bjarni Snæðingur og hjónin Magni og Hugrún í KronKron. Eyþór Einarsson, bóndi og ráðunautur, var æðsti dómari í þuklinu.

Eyþór gerði grein fyrir því um hvað hrútaþukl snerist áður en hafist var handa. Keppendur þurftu að átta sig á vöðvafyllingu á hrútunum og meta háls og herðar, bringu og útlögur, bak malir og læri. Einnig áttu þeir að skoða haus, fætur og eistu, og síðast en ekki síst ulllina. Venjulega er notuð ómmælingartækni til að mæla þykkt vöðva og fitu, en keppendurnir í dag höfðu ekki aðgang að slíkri tækni. Hvort það réði úrslitum skal ósagt látið, en enginn keppenda setti þó skepnuna, sem sérfræðingar töldu mesta afbragðshrútinn, í efsta sætið.

KEX-þuklið var vel sótt og var veitt rjúkandi kjötsúpa áður en keppnin hófst til að ylja viðstöddum í blíðviðrinu. Böðvar E. Guðjónsson, framkvæmdastjóri KEX hostels, sagði þegar hann kynnti keppnina að hér eftir yrði hrútaþuklið árlegur viðburður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert