Ekki sátt við svar landlæknis

Í svari landlæknis er vísað til meðferðarstarfs SÁÁ á Vogi.
Í svari landlæknis er vísað til meðferðarstarfs SÁÁ á Vogi. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rótin er ekki sátt við viðbrögð landlæknis við erindi sem félagið sendi honum vegna öryggis kvenna í áfengismeðferð.

Rótin sendi landlækni erindi í apríl á síðasta ári, en landlæknir svaraði í júní sama ár. Fram kemur í tilkynningu frá Rótinni að bréfið hafi ekki borist til Rótarinnar fyrr en í síðustu viku.

„Ráð Rótarinnar lýsir miklum vonbrigðum með svar embættisins og það vekur í raun fleiri spurningar en það svarar. Embættið byggir sínar niðurstöður eingöngu á upplýsingum frá yfirlækni á Vogi og ekki virðist hafa verið leitað til neinna sjúklinga eða vettvangsathugun farið fram. Einnig beinir Landlæknir því til Rótarinnar að „vinna með forsvarsmönnum SÁÁ í því starfi til að tryggja öryggi þeirra kvenna sem þar leita þjónustu“. 

Þessi orð vekja okkur mikla furðu. Í fyrsta lagi beinist krafa Rótarinnar að meðferðarstarfi almennt og ekki er minnst sérstaklega á SÁÁ í erindi okkar. Í öðru lagi er Rótin hagsmunafélag sem hefur litlar forsendur til að vinna að gæðamálum á sjúkrahúsum. Í þriðja lagi var Rótin upphaflega stofnuð innan SÁÁ en sökum skoðanaágreinings var ákveðið að stofna óháð félag til að berjast fyrir réttindum kvenna með áfengis- og fíknivanda.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er tilgangur hennar að „allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði“. Í lögum um landlækni og lýðheilsu segir að hlutverk embættisins sé að „tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma“.

Það er á grundvelli þessara laga sem Rótin leitar til embættisins sem eftirlitsaðila og við teljum að það halli alvarlega á notendur kerfisins ef sú aðferð sem lýst er í svari embættisins er viðhöfð við eftirlit. Lengi hefur fíknimeðferð verið á jaðri heilbrigðiskerfisins og rekin af félagsamtökum og einkaaðilum. Það breytir því ekki að sömu lög gilda um þessa heilbrigðisþjónustu og þá sem rekin er af ríkinu,“ segir í fréttatilkynningu frá Rótinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert