Mengun mun valda raski á morgun

Enginn hefur þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna gasmengunar sem mælst hefur á Höfn í Hornafirði í dag. Styrkurinn fór upp í 18.500 míkrógrömm á rúmmetra kl. 18 en hefur ekki farið yfir það í kvöld. Þetta eru afar há gildi og ljóst þykir að staðan verður síst skárri á morgun.

Mengunina má rekja til brennisteinsdíoxíðs sem berst frá eldgosinu í Holuhrauni. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna, segir í samtali við mbl.is, að gildin séu gríðarlega há, enda er þetta skilgreint sem hættuástand á vef Umhverfisstofnunar.

Aðspurður segir Víðir að hann viti til þess að læknar hafi verið í sambandi við fólk í kvöld og kannað með líðan þess, sér í lagi þeirra sem vitað er að séu með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma.

„Nei, við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um það ennþá - sem betur fer,“ segir Víðir þegar hann er spurður hvort vitað sé til þess að einhver hafi veikst og þurft að leita til læknis vegna mengunarinnar.

Börn og fullorðnir haldi sig innandyra á morgun

„Það er búið að senda út tilmæli til foreldra barna í skólum og leikskólum á Hornafirði að keyra börn sín í skólann á morgun og að börnum verði haldið inni í skólum á morgun,“ segir Víðir.

„Ef þetta verður svona hátt ennþá í fyrramálið þá gilda þau tilmæli okkar að fólk haldi sig innandyra. Þá má reikna með því að það verði lítil starfsemi utandyra,“ segir hann ennfremur.

„Þetta mun því raska töluverðu á morgun á þessu svæði,“ bætir hann við.

Hann segir að þetta sé með því mesta sem hafi mælst í þéttbýli frá því mælingar hófust. „Skalinn sem við erum með frá Havaí hann nær ekki nema upp í 15.000 [míkrógrömm á rúmmetra]. Þetta er ekki algengt þar,“ segir hann og bætir við að það sé mjög sjaldgæft að svo há gildi mælist í byggð í eldgosum.

Mengun færist yfir á Austfirði

Aðspurður segir hann að samkvæmt spá Veðurstofunnar muni mengunin færast yfir á Austfirði á morgun. „Vonandi verður vindurinn meiri svo að þetta safnist ekki svona mikið fyrir eins og gerði í dag,“ segir Víðir.

Hvað varðar ferðamenn segir hann að upplýsingar verði birtar, bæði á íslensku og ensku, á heimasíðu og facebooksíðu almannavarna. Tilmælum verði jafnframt beint til ferðaþjónustufyrirtækja.

Jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu er með svipuðu sniði og hún hefur verið undanfarna daga. Kl. 17:34 í kvöld mældist þar skjálfti að stærðinni 4,6. Sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu í dag varð kl. 05:54, en hann var 5,3 að stærð. Ekkert dregur úr siginu í Bárðarbungu og er því atburðarásin enn í fullum gangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert