Vilja að kjör eldri borgara verði leiðrétt

mbl.is/Ómar

Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík skorar á ríkisstjórnina að leiðrétta strax lífeyri aldraðra vegna kjaragliðnunar síðastliðin 5 ár. Í ályktun nefndarinnar segir að um sé að ræða mannréttindabrot og minnt á að stjórnarflokkarnir báðir lofuðu því fyrir kosningar að framkvæma þessa leiðréttingu strax, ef þeir kæmust til valda.

„Samkvæmt stjórnarskránni eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum og allir eiga að njóta mannréttinda. Í lögum um málefni aldraðra segir, að aldraðir eigi að njóta jafnréttis á við aðra þegna þjóðfélagsins. Mikill misbrestur hefur verið á því, að þessum lagaákvæðum hafi verið framfylgt. Rannsóknir leiða í ljós, að biðtími aldraðra eftir meðferð á sjúkrastofnunum er lengri en þeirra sem yngri eru. Í launa- og kjaramálum hafa eldri borgarar sætt annarri meðferð en aðrir launþegar. Kjörum eldri borgara hefur verið haldið niðri og þau skert á sama tíma og láglaunafólk hefur fengið kjarabætur. Embættismenn og alþingismenn hafa fengið leiðréttingu á kjörum sínum afturvirkt á sama tíma og kjör aldraðra hafa verið fryst. Eldri borgurum hefur því verið mismunað freklega,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert