Aukinn áhugi á ferðum til Vesturheims

Stórt samfélag Íslendinga er í Gimli. Mynd úr safni.
Stórt samfélag Íslendinga er í Gimli. Mynd úr safni. Árni Sæberg

„Við höfum svo sannarlega fundið fyrir auknum áhuga. Áhuginn á svona ferðum er alltaf mikill en það er eins og þessir þættir hafi ýtt hressilega við honum,“ segir Jónas Þór, fararstjóri og skipuleggjandi hjá Bændaferðum, aðspurður um aukinn áhuga á ferðum á slóðir Vestur-Íslendinga eftir að þætti Egils Helgasonar, Vesturfarar, voru sýndir á RÚV.

Í þáttunum hefur Egill farið til staða í Bandaríkjunum og Kanada og rekið þar sögur Vestur-Íslendinga og tekið viðtöl við afkomendur þeirra. Jónas Þór segir að þættirnir séu góðir og veki áhuga fólks enn frekar á þessum svæðum.

„Það hafa margir haft samband og þá sérstaklega félagasamtök, rótarýklúbbar, saumaklúbbar og kórar. Fólk nefnir þættina sérstaklega og segir að þeir hafi ýtt við sér,“ segir Jónas. 

Bændaferðir hafa boðið upp á ferðir til Vesturheims í fjölda mörg ár og Jónas fagnar aukinni umræðu um þessi samfélög. 

„Þetta voru góðir þættir. Það sem mér fannst t.d. gott hjá honum Agli var að hann fór alveg vestur að Kyrrahafi sýndi fólki að Íslendingar settust að víðar en í Manitoba. Ég hef verið í þessu í mörg ár og farið með fleiri þúsundir manns á þessar slóðir,“ segir Jónas Þór.

Aðspurður um hvað það sé sem heillar fólk í þessum ferðum segir Jónas Þór það vera þessi ákveðni heimur sem fólk kemst í. 

„Fólk er ekki að fara að skoða landslag eða byggingar, fornar kirkjur eða hallir heldur er það mannlífið og þessi heimur afkomenda vesturfaranna sem fólkið vill kynnast. Það er aðeins ein leið til þess og hún er að fara í þessa ferð og dvelja eitthvað meðal þessa fólks.“

Egill fer með vesturfara í ágúst

Ingibjörg Eysteinsdóttir, framleiðslustjóri Úrval Útsýn tekur í sama streng og Jónas Þór en ferðaskrifstofan er nú að skipuleggja ferð til vesturheims næsta sumar þar sem Egill Helgason sjálfur er fararstjóri.

„Við höfðum samband við Egil fyrir um mánuði síðan. Það sást bara um leið og þættirnir fóru í sýningu að áhuginn á ferðum þangað jókst alveg gífurlega. Við settum upp ferð sem við ætlum að fara í ágúst á næsta ári, erum að leggja lokahöndina á skipulagið og verðið,“ segir Ingibjörg.

Ákveðið var þó að hefja auglýsingar á ferðinni núna um helgina og að sögn Ingibjargar hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. 

„Það hrannast inn eftirspurnir fólk sem hefur áhuga og vill fá að vita hvenær þetta fer í sölu. Sumir vilja bara bóka án þess að vita einu sinni hvað ferðin kostar,“ segir Ingibjörg. „Það virðist hafa orðið einhver vakning á áhuga um að fræðast um þessa staði og fá að vita hvernig þetta var.“

Í ferðinni verður farið á alla sömu staðina og í þáttum Egils. Flogið er til Minneapolis og þaðan farið til Norður-Dakóta, Gimli og Winnipeg. Jafnframt verður flogið þaðan til Vancouver á vesturströnd Kanada og skoðaðar slóðir Vestur Íslendinga þar. 

Að sögn Ingibjargar hefur verið vinsælt í gegnum árin meðal kóra að fara á slóðir Vestur Íslendinga hún man ekki eftir almennum áhuga eins og þessum. 

Ekki er búið að ákveða hversu mörg sæti verða í ferðinni á næsta ári. Ingibjörg telur þó líklegt að það munu færri komast að en vilja. „Miðað við áhugann tel ég líklegt að ekki allir fái að koma með. En við erum með takmarkaðan sætafjölda svo að allir gæti notið sín í ferðinni.

Aðspurður hvort að Egill sé ekki spenntur segir Ingibjörg svo vera. „Egill er mjög spenntur og almennilegur í sambandi við þetta allt saman. Hann á eftir að gera þetta mjög vel.“

Egill Helgason stýrði þættinum Vesturheimur á RÚV.
Egill Helgason stýrði þættinum Vesturheimur á RÚV. mbl.is/Steinar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert