Þriðjungur á eftirlaun eftir þrjú ár?

Mynd er úr safni
Mynd er úr safni Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Starfandi hjúkrunarfræðingar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru 2.885 talsins, þar af eru 1.400 á Landspítala eða rétt tæplega helmingur. Um 95% allra hjúkrunarfræðinga eru í félaginu. Á næstu þremur árum geta 900 hjúkrunarfræðingar farið á eftirlaun og 630 á næstu tveimur árum.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Ólafs G. Skúlasonar, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, á málþingi á vegum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem haldið var í salarkynnum Grand Hótels Reykjavík í dag.

„Á þessum þremur árum getur einn þriðji starfandi hjúkrunarfræðinga farið á eftirlaun, kjósi þeir svo. Samkvæmt mannaflaspá sem við gerðum árið 2007 útskrifum við 145 hjúkrunarfræðinga á ári sameiginlega bæði úr Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Það gerir um 435 hjúkrunarfræðinga á þessum þremur árum. Það sjá því allir að við munum ekki ná að mennta helminginn af þeim fjölda sem má fara á eftirlaun,“ sagði Ólafur G. í ávarpi sínu fyrr í dag.

Fjölmargir vilja hjúkrunarleyfi í Noregi og Svíþjóð

Í fyrra útskrifuðust 134 hjúkrunarfræðingar og segir Ólafur G. nú ljóst að gera verði átak í því að fá ungt fólk til þess að hefja nám í hjúkrunarfræði.

„Þessar tölur sem ég nefndi eru sláandi en í þeim eru ekki þeir hjúkrunarfræðingar sem hætta í hjúkrun, flytja erlendis eða velja sér annað nám,“ sagði hann og benti á að gríðarleg aukning væri nú í röðum þeirra hjúkrunarfræðinga sem sækja um hjúkrunarleyfi í Noregi og Svíþjóð. Nefnir hann sem dæmi að árið 2011 hafi hátt á þrjú hundrað íslenskir hjúkrunarfræðingar sótt um hjúkrunarleyfi í Noregi. Er það um 10% starfandi hjúkrunarfræðinga.

„Sífellt fleiri hjúkrunarfræðingar eru farnir að taka vinnuskorpur í Noregi og jafnvel minnka vinnuhlutfall á Íslandi í staðinn. Þeir fá náttúrulega hærri laun þar. Svo virðist sem aukinn fjöldi sé að fara að flytja erlendis líka. Bara af þeim hjúkrunarfræðingum sem ég þekki persónulega eru fimm að flytja til Noregs eða Svíþjóðar núna í haust.“ Þeir hjúkrunarfræðingar sem hér um ræðir eru ekki að flytja úr landi vegna náms eða náms maka síns heldur eru þeir að sækjast eftir hærri launum og betri starfsaðstæðum.

„Auk þessa þá finn ég fyrir aukningu í því að hjúkrunarfræðingar eru að sækja í önnur störf en hjúkrun því þeir telja hjúkrunarstarfið ekki samkeppnishæft hvað varðar laun, vinnuaðstæður og álag,“ sagði Ólafur G.

Svipaða sögu er að segja af sjúkraliðum, en sú starfsstétt eldist nú hratt og er stór hluti þeirra þegar kominn yfir 55 ára aldur. „Þeir eru enn verr staddir en við að því leyti að þeir eru hlutfallslega eldri.“

Hvað er til ráða?

Til að sporna gegn þessari alvarlegu þróun verður, að mati formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að bæta kjör hjúkrunarfræðinga. Nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur hjá hinu opinbera er með 297.634 krónur í byrjunarlaun eftir fjögurra ára háskólanám. 

Launamunur viðskiptafræðinga og hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera er 18%. „Þrátt fyrir að nám hjúkrunarfræðinga sé lengra en þeirra. Í raun útskýrir ekkert þennan launamun nema það að önnur er hefðbundin kvennastétt en hin var hefðbundin karlastétt.“

Segir hann ekki lengur hægt að ganga að því vísu að konur sæki í störf hjúkrunarfræðinga þar sem aukinn fjöldi kvenna sækir nú í nám á borð við tölvunarfræði, verkfræði og læknisfræði svo fátt eitt sé nefnt. „En sama þróun hefur ekki orðið hjá karlmönnum. Karlmönnum í hefðbundnum kvennastörfum hefur fjölgað hægt,“ sagði hann og bætti við að erlendis væri algengt að karlkyns hjúkrunarfræðingar væru á bilinu 8 til 25 prósent en hér á landi eru þeir hins vegar 2%.

Meðal þeirra sem ávarp fluttu á málþinginu í dag voru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna, og Bryndís Hlöðversdóttir, starfsmannastjóri Landspítalans, en hún kom í stað forstjóra spítalans sem forfallaðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert