79,5% bera mikið traust til lögreglunnar

Samkvæmt niðurstöðum úr nýrri könnun MMR bera flestir landsmenn mikið traust til lögreglunnar, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Ríkisútvarpsins og Landsvirkjunar. Fæstir sögðust bera mikið traust til bankakerfisins, Alþingis, Fjármálaeftirlitsins og lífeyrissjóðanna.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 79,5% bera mikið traust til lögreglunnar, 70,2% til Háskóla Íslands, 58,0% til Háskólans í Reykjavík, 51,3% til Ríkisútvarpsins og 41,8% til Landsvirkjunar.

Traust á Alþingi minnkar

Traust til háskólanna jókst nokkuð frá október 2013. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 70,2% bera mikið traust til Háskóla Íslands, borið saman við 61,3% í október 2013 og 58,0% sögðust bera mikið traust til Háskólans í Reykjavík nú, borið saman við 48,6% í október 2013.

Traust til Landsvirkjunar, stéttarfélaganna, Seðlabankans, Evrópusambandsins,VR, Fjármálaeftirlitsins og bankakerfisins hefur ekki verið meira frá því að mælingar hófust.

Á meðan traust til flestra stofnana jókst frá síðustu mælingu dróst traust til ríkisstjórnarinnar og Alþingis saman. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 17,4% bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, borið saman við 23,0% í október 2013 og 12,8% sögðust bera mikið traust til Alþingis nú, borið saman við 16,4% í október 2013.

Könnunin var framkvæmd dagana 16. til 21. október 2014 og var heildarfjöldi svarenda 959 einstaklingar 18 ára og eldri. Taka ber fram að umræða um vélbyssuvæðingu lögreglunnar hófst 21. október sl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert