Hjúkrunarfræðingar í mestri smithættu

Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala.
Hjúkrunarfræðingar á vakt á hjartadeild Landspítala. mbl.is/Golli

„Hjúkrunarfræðingar eru þeir sem munu koma til með að sinna umönnun ebólusjúklinga og þar af leiðandi eru þeir útsettastir fyrir því að smitast ef eitthvað bregst, segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem í dag sendi frá sér ályktun vegna ebólu faraldursins. 

Í ályktuninni hvetur félagið stjórnvöld til að vanda vel til undirbúnings viðbragða við mögulegri móttöku sjúklinga með ebólu og kemur fram að hjúkrunarmeðferð slíkra sjúklinga sé það flókin að hún krefjist sérstakrar þjálfunar þar sem vanda verður til verka.

„Það þarf að gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Ólafur.

„Spítalinn er náttúrulega barn síns tíma og er byggður fyrir tíma nútímaþekkingar á smitsjúkdómum þannig að ég hef vissulega áhyggjur af þeim aðstæðum sem eru þar,“ segir hann en auk smitvarna nefnir hann nauðsyn trygginga fyrir þá sem sinna munu sjúklingunum.

„Að því er ég best veit er ekki búið að finna út úr tryggingum komi til þess að fólk smitist af ebólu við störf og það er eitthvað sem ég tel að sé algjört forgangsatriði, að það sé skýrt hvaða tryggingar fólk hefur,“ segir Ólafur. 

Félagið sendi jafnframt frá sér aðra ályktun þar sem lýst yfir þungum áhyggjum af núverandi stöðu á Landspítala vegna ófullnægjandi húsakosts og álags á starfsfólk. Er þar skorað á stjórnvöld að setja byggingu nýs Landspítala í forgang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert