Kynna matsáætlun Sprengisandsleiðar

Mynd er úr safni
Mynd er úr safni Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Unnin hafa verið drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Sprengisandsleið (26) milli Suður- og Norðurlands og þau lögð fram til kynningar á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir einnig að framkvæmd þessi feli í sér nýjan og endurbyggðan veg frá Sultartangalóni að Mýri í Bárðardal. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er í þremur sveitarfélögum, en það eru Rangárþingi ytra, Ásahreppi og Þingeyjarsveit.

Núverandi vegur er 219 km langur sumarvegur og er hann á köflum lítillega niðurgrafinn slóði með óbrúuðum ám. Vegurinn liggur hátt yfir sjó, eða mest í um 800 m hæð. Nýr vegur verður 187 til 197 km langur en lengd er háð leiðarvali. Þá verður vegurinn átta m breiður og nokkuð uppbyggður með bundnu slitlagi og brúuðum ám.

Hönnunarhraði verður á bilinu 70 til 90 km/klst, að því er fram kemur í tilkynningu og hann háður landslagi þar sem við á. Til stendur að meta umhverfisáhrif tveggja leiða.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur um miðhálendi Íslands milli Suður- og Norðurlands, en einnig að bæta aðgengi almennings að miðhálendinu til útivistar og til að styrkja ferðaþjónustu.

Vert er að benda áhugasömum á að hægt er að nálgast drögin að tillögunni á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Frestur til að gera athugasemdir er til 20. nóvember næstkomandi og er öllum frjálst að skila inn athugasemd.

Þá verða drögin kynnt almenningi með opnu húsi þann 4. og 5. nóvember í Ljósvetningabúð í Köldukinn í Þingeyjarsveit og á Hellu hjá Steinsholti sf. að Suðurlandsvegi 1 til 3. Verða samhliða kynnt drög að matsáætlun vegna undirbúnings umhverfismats háspennulínu yfir Sprengisand.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert