Mislæg gatnamót fækka slysum

Mislæg gatnamót.
Mislæg gatnamót. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt athugun Vegagerðarinnar á þrennum nýlegum mislægum vegamótum fækkar slysum um 46 - 67% við byggingu slíkra mannvirkja. Þótt áhrif þeirra séu mismunandi þykir Vegagerðinni ljóst að þau leiði til bætts umferðaröryggis með umtalsverðri fækkun slysa.

Skoðuð voru þrenn vegamót á höfuðborgarsvæðinu. Vegamót Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar sem byggð voru árið 2006, vegamót Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar frá árinu 2008 og mislægu vegamótin á Reykjanesbraut og Vífilsstaðavegi sem byggð voru á árunum 2008 og 2009. 

Slysum fækkaði á þeim fyrstnefndu um 64%, um 67% á vegamótum Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar en minnst, eða um 46% á síðasttöldu vegamótunum, mótum Reykjanesbrautar og Vífilsstaðavegar. Óvenjumörg slys urðu á vegamótunum árið 2013 og mun umferðardeild Vegagerðarinnar skoða það sérstaklega

Áhrifin á umferðaröryggi eru góð, er niðurstaða skýrslunnar sem sjá má hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert